Á menntaskólaárunum var ég um tíma í Framsókn, sótti stjórnmálanámskeið og hélt, að ég mundi fræðast um stjórnmálastefnur. Í staðinn var í boði kennsla í ræðublekkingum að hætti Junior Chamber. Mér varð svo hverft við, að ég hætti strax. Löngu seinna áttaði ég mig á, að það var skortur á virðingu námskeiðsins fyrir sannleika, sem fældi mig frá því. Allar götur síðan hefur núningur minn við samfélagið einkum falizt í andúð minni á hræsni og dálæti mínu á vonlítilli leit að sannleika.
Ég var ritstjóri Skólablaðsins í 5. bekk. Síðan hef ég ekki vikið af leið og er nú búinn að vera í blaðamennsku og ritstjórn í hálfa öld. Ég kom inn í undarlega flokkspólitíska veröld, þar sem hræsni var í algleymingi og sannleikur lítils metinn. Ég kynntist eldri ritstjórum, sem voru að reyna að byrja að klóra sig út úr þessu ástandi. Ég tók við kyndlinum af þeim og vildi gefa út fréttablöð eins og þau, sem ég las, þegar ég bjó erlendis. Blöð sem höfðu leitina að sannleikanum að leiðarljósi.
Það gekk vel. Að öðru leyti þroskaðist ég lítið og tróð löngum marvaðann í eins konar vinsamlegri styrjöld milli blaðamennsku annars vegar og stjórnmála, auglýsinga og eigenda hins vegar. Það var ekki fyrr en um fimmtugt, að ég tók út þroska og fór að gera mér grein fyrir tæpri stöðu minni í samfélaginu. Um það leyti var ég orðinn svo hrokafullur, að ég speglaði sjálfsvirðingu mína ekki lengur í augum annarra. Þá kaus ég að feta braut, sem hafnaði ýmsum gildum samfélagsins og leiddi fljótt til sviptinga í starfi.
Snemma áttaði ég mig á, að margir hafa hræsni að leiðarljósi, taka jafnan þægindi og hagkvæmni líðandi stundar fram yfir sannleika. Eftir fimmtugt fór ég að skynja, að þessu fylgir eindregin afneitun. Fjöldi fólks neitar beinlínis að sjá neitt, sem gæti spillt trú þess á það sem er þægilegt og hentugt, rólegt og einkum hagkvæmt. Hræsni og afneitun eru tvær hliðar á sama einseyringi, hinu íslenzka þrælasamfélagi nútímans. Stjórnmálamenn eru ekki sekir, þeir endurspegla bara eymd samfélagsins.
Allra síðustu ár hef ég staðnæmst við hugtakið gegnsæi sem einu færu leiðina úr myrkri samfélagsins. Það verður að neyða fólk til að sjá, ef það á að geta leikið hlutverk sitt í lýðræðislegu samfélagi. Við þurfum að gera sem flest gegnsætt, allt frá fjárreiðum stjórnmála yfir í samskipti við erlend ríki, allt frá vanskilum á skatti yfir í vanskil á meðlagi. Við þurfum að opna allt það, sem nú er lokað, jafnvel ættir fólks, fjármál fólks, útistöður fólks við samfélagið. Við þurfum að lofta út haughúsið.
Ég er sáttur við ævina. Þeir, sem stjórnast að innan, hafa betri tök á lífi og sál en hinir, sem velkjast um eftir vindum samfélagsins. Ég hefði þó kosið að þjálfa húmorinn betur. Hann felur í sér mildari höfnun á gildum samfélagsins, dregur úr einsemd. Þessi skortur á auðsprottinni gamansemi er mér fjötur um fót. Hann er mín sök, því að hver er sinnar gæfu smiður. En það er léttvægt í samanburði við, að ég hef náð að skrifa 7400 greinar um minnisstæð mál, allar aðgengilegar á vefnum. Og er enn á fullu.
Þegar ég sezt í helgan stein, tek ég á hrokanum.
(Ísafold, marz 2007)