Skópissingar

Greinar

Mælingar á seiðum sýna, að Ísland fær ekki happdrættisvinning úr sjónum á næsta ári. Þorskstofninn helzt lítill og þolir litla veiði á næstu árum. Ekki er ástæða til að reikna með, að þetta fari að lagast eftir tvö eða þrjú ár og miða efnahagsáætlanir sínar við það.

Ríkisstjórnin hefur samt ákveðið að láta sem þorskaflabresturinn sé skammtímabundið ástand, er megi brúa með tveggja milljarða króna spýtingu í verklegar framkvæmdir hins opinbera á næsta ári, eins milljarðs króna árið 1994 og hálfs milljarðs króna árið 1995.

Gæfulegra væri að spá varanlegri afleiðingum ofveiðinnar á þorski. Betra væri, að ríkisstjórnin aflaði sér og öðrum gleggri sýnar með því að tefla saman upplýsingum um hættur af atvinnuleysi annars vegar og hættur af langvinnri skuldasöfnun í útlöndum hins vegar.

Um leið og fólk fagnar atvinnuauka vegna aukinna ríkisframkvæmda verður það að muna eftir, að reikningurinn verður sendur afkomendum okkar, þegar þeir þurfa eftir tíu ár að borga erlendar skuldir, sem mislukkaðir foreldrar eru að stofna til um þessar mundir.

Ríkisstjórnin er í hlutverki hins misheppnaða foreldris, sem gefst upp á sparnaði í heimilisútgjöldunum og ýtir vandamálinu til hliðar og fram á veg með því að hækka virðisaukaskatt um tæplega milljarð á ári og auka erlendar skuldir um tvo milljarða á ári.

Þegar ríkisstjórn er lítil og vandinn stór, má búast við skópissingum af þessu tagi. Röksemdafærsla ráðherranna dregur dám af þessu. Forsætisráðherra segist geta aukið ríkisumsvif, af því að hann hafi áður náð svo miklum árangri í niðurskurði ríkisumsvifa á sama ári.

Samkvæmt þessu mati ráðherrans er eðlilegt, að fólk fari í megrun í þeim tilangi að geta bætt á sig aftur til að verðlauna sig fyrir árangurinn í megruninni. Slíkt gera sumir raunar, en án þess að fara með rökleysur til að útskýra, hvers vegna þeir hafi misst tökin.

Svo virðist sem ríkisstjórnin nenni ekki lengur að hafa fyrir framleiðslu nothæfra röksemda fyrir einstökum skrefum á undanhaldinu. Hún er þreytt á vandamálunum og hún er þreytt á fjölmiðlunum, sem stundum spyrja nýrra spurninga eftir hvert innantómt svar.

Eftir óskipulegt undanhald í virðisaukaskattinum er staðan nú þannig, að með afnámi endurgreiðslna á innskatti og með öðrum hliðaraðgerðum vill stjórnin ná tæplega milljarði króna í hreinar viðbótartekjur eftir að búið er að draga frá lækkun skatthlutfallsins um 1%.

Þessa hækkun virðisaukaskattsdæmisins um tæpan milljarð kallar ríkisstjórnin lækkun virðisaukaskatts. Ekki er auðvelt að sjá, hverjir eigi helzt að láta blekkjast af óframbærilegum málflutningi af þessu tagi. Hugsanlega eru ráðherrarnir bara að sefa sjálfa sig.

Í reynd mun kostnaður almennings ekki lækka um einn fjórða úr prósenti vegna lækkunar skattahlutfalls um eitt prósent, heldur munu seljendur halda þessu litla broti hjá sér. Hitt, sem lendir í afnámi endurgreiðslnanna, mun yfirleitt hækka um 15% í verði til fólks.

Margt hefði ríkisstjórnin getað gert vitlegra í skattahækkunum en einmitt þetta, en svona verður niðurstaðan, þegar ráðherrar telja kjarna málsins felast í að geta reynt að snúa út úr því, að þeir hafa svikið kosningaloforð um alls engar skattahækkanir á kjörtímabilinu.

Svona hringsnúningum og tvísögnum lenda menn í, þegar þeir neita að spara þjóðinni milljarða með því að leggja niður pilsfaldakerfi úreltra atvinnuhátta.

Jónas Kristjánsson

DV