Skopmynd af ríkisrekstri

Greinar

Einn þekktasti leturhönnuður og leturfræðingur heims er Gunnlaugur Briem, sem búsettur hefur verið jöfnum höndum í San Francisco og London. Hann hefur ritað þekkta bók um leturfræði og er eftirsóttur fyrirlesari. Hann hefur hannað letur ýmissa heimsþekktra blaða.

Ætla má, að íslenzk stofnun, sem býr ekki yfir nokkurri minnstu þekkingu á sviði leturfræða og prentlistar, taki tveimur höndum vinsamlegum tillögum frá slíkum manni um leturbreytingu á símaskrá, svo að hún minnki um fjórðung og verði læsilegri um leið.

En embættismenn Póst- og símamálastjórnarinnar á Íslandi vita ekkert, hver er Gunnlaugur Briem, ekki frekar en þeir vita, hver var Picasso eða Gutenberg. Þeir vita yfirleitt ekki, hvað er leturfræði eða leturhönnun. Allt, sem varðar prentlist, er þeim lokuð bók.

Er bréf Gunnlaugs Briem barst yfirmönnum Pósts og síma fyrir nokkrum árum, stungu þeir því undir stól, af því að þeir töldu, að fólk úti í bæ ætti ekki að skipta sér af þeim. Þeir sameinuðu heimsku og hroka skopmyndarinnar af embættismönnum í einokunarstofnun.

Löngu áður en byrjað var að undirbúa hina furðulegu símaskrá, sem landsmenn hafa nú fengið í hendur, vissu yfirmenn Pósts og síma, að framganga þeirra í leturmálinu var orðin til umfjöllunar í fjölmiðlum. Eigi að síður fóru þeir sínu fram, með augljósum afleiðingum.

Ef embættismenn Pósts og síma hefðu meðtekið tillögur sérfræðingsins af tilhlýðilegri auðmýkt og virðingu, hefði verið hægt að koma allri símaskránni fyrir í einu bindi, sem ekki hefði verið stærra en annað bindið er nú. Um leið hefði bókarletrið orðið mun læsilegra.

Afleiðingin af framgöngu embættismanna Pósts og síma er tvískipt símaskrá, sem er full af villum og eyðum vegna tvískiptingarinnar. Viðskiptamenn stofnunarinnar verða að leita í tveimur skrám til að finna símanúmer fyrirtækja og stofnana og sum númer finnast alls ekki.

Tugir og ef til vill hundruð farsímanúmera eru ekki í skránum, ekki heldur ýmis númer á sviði neyðarþjónustu, svo sem nokkurra lækna. Að öðrum númerum leita menn fyrst í atvinnuskránni og finna síðan í almannaskránni, samkvæmt geðþóttaskiptingu Pósts og síma.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur Póstur og sími gefið út símaskrá, sem er skorin á þann hátt, að sums staðar detta línur og símanúmer niður af síðunum. Hörmuleg vinnubrögð stofnunarinnar við útgáfu skrárinnar eru óþekkt fyrirbæri í útgáfustarfsemi á Íslandi.

Þetta er auðvitað stofnunin, sem heldur, að Ericsson hafi fundið upp símann, og hefur ítrekað valdið fyrirtækjum stórfelldum skaða með óskýranlegum bilunum í nýlegum símstöðvum. Stofnunin, sem hagar sér svona, er auðvitað ein þekktasta einokunarstofnun ríkisins.

Þótt raunasaga Pósts og síma sé löng, eru viðbrögð stofnunarinnar við leturtillögum, og afleiðingar þeirra viðbragða í furðulegri símaskrá, eitt einfaldasta og skýrasta dæmið um, að stofnunin er ekki fær um að þjóna fólkinu í landinu og ætti að glata einokuninni.

Hlutverks síns vegna gefur Póstur og sími út á hverju ári þá bók, sem eðli málsins samkvæmt er mest notuð. Þess verður hvergi vart, að fagþekkingu, sem beitt er við nokkurn veginn allar aðrar bækur og flest prentað mál, sé beitt innan hinnar gæfulausu einokunarstofnunar.

Póstur og sími fékk lausn símaskrármálsins afhenta á silfurfati fyrir nokkrum árum, en heimska og hroki komu í veg fyrir, að stofnunin nýtti sér hana.

Jónas Kristjánsson

DV