Hestaferðamenn eru sammála um margt, en á einu sviði hafa þeir hver sína sérstöku skoðun, sem er önnur en skoðanir flestra hinna. Það er fótabúnaður þeirra á hestaferðum. Við skulum sjá, hvað nokkrir reyndir ferðamenn hafa um það að segja.
Andreas Bergmann:
Ég nota venjuleg reiðstígvél, svo að ég blotni síður, þegar farið er yfir ár. Auk þess hlífa stígvélin vel buxunum.
Árni Ísleifsson:
Á fótunum hef ég ullarsokka og víð stígvél, en ekki reiðstígvél, sem eru hál, þegar maður þarf að ganga. Víðu stígvélin lofta betur og það er auðveldara að komast í þau og úr.
Bjarni E. Sigurðsson:
Ég er hættur að ríða í stígvélum. Þau fóru illa með fæturna, maður var alltaf eins og soðinn og rakt fóðrið rifnaði fljótlega í þeim. Þau eru líka sleip. Í góðu veðri ríð ég í strigaskóm, af því að þeir eru liprir og lofta vel og eru líka fljótir að þorna, ef maður blotnar. Í köldu veðri ríð ég í uppháum kuldaskóm, helzt reimuðum leðurskóm með hörðum sóla. Ég lenti einu sinni undir hesti með fótinn og skaddaðist ekki neitt, af því að harður sólinn bognaði ekki undan þunganum.
Einar Bollason:
Ég er einn af þeim, sem lengst þráuðust við að vera í víðum stígvélum meðan aðrir voru farnir að ríða í skóm. Ég gafst svo upp fyrir tveimur árum, þegar ég datt niður á fyrsta klassa gönguskó úr leðri, uppháa, með heilli tungu. Ég hef hins vegar með mér í trússinu víð stígvél, sem lofta vel. Slíkan fótabúnað nota ég til dæmis á Löngufjörum. Þröng reiðstígvél hef ég hins vegar aldrei þolað á ferðalögum. Sá galli er við skóna, að mér sýnist stígvélaðir menn vera fúsari að sækja hross í blautum haga heldur en þeir, sem tipla um á skóm og geta því í rauninni ekki talizt vera fullgildir ferðamenn.
Guðbrandur Kjartansson:
Við erum í rosabullum úr leðri. Þær hafa reynzt bezt, því að þær halda vatni, þegar farið er yfir djúpar ár og þegar gengið er um blauta haga eða mýrar. Skór halda vatni miklu síður. Það er auðvelt að fara í stígvélin, því að þau eru víð að ofan. Við höfum lent í vöðum upp á mið læri, en skálmar og stígvél hafa haldið okkur þurrum. Mikilvægt er að bera vel á hvort tveggja og úða með rakaþétti.
Hannes Einarsson:
Á fótunum er ég oftast með víð stígvél, en stundum með háa leðurskó, ef ég býst hvorki við vatnssulli né rekju.
Haraldur Sveinsson:
Ég vil vera í víðum vaðstígvélum, hef reynt að vera í leðurstígvélum, en það gengur ekki, því að þau blotna í gegn.
Hjalti Gunnarsson:
Mest nota ég leðurskó, oftast öryggisskó með stáltá, sem notaðir eru í byggingaiðnaði og koma sér vel, þegar ég er að atast í hrossum. Þetta eru öklaháir skór með heilli tungu, vatnsþéttir svo langt sem þeir ná. Ég svitna miklu minna í þeim en í stígvélum. Svo er ég líka með víð stígvél í trússinu og nota þau, þegar koma dagar með vatnssulli. Í Kjalaferðum eru flest vötnin á einni og sömu dagleiðinni, Blanda, Svartakvísl og Strangakvísl.
Jónas Kristjánsson:
Venjulega nota ég 25 sm háa og vel vatnsþétta riddaraliðsskó úr leðri, með heilli tungu. Þeir lofta vel, halda vatni yfir flestar ár og í mjög blautri áningu. Þegar ég býst við djúpu vaði eða miklu vatnssulli, ríð ég í gúmmískóm, sem ég helli úr í næstu áningu.
Kristjana Samper:
Mest notum við uppháa leðurskó með stáltá og heilli tungu. Þeir eru með teygju á hliðinni og eru ekki reimaðir, enda er okkur illa við reimar á hestbaki, því að við höfum heyrt um slys af völdum þeirra. Ef við reiknum með vatnssulli á dagleiðinni, notum við stundum víð gúmstígvél, en ekki reiðstígvél.
Ólafur B. Schram:
Venjulega not ég íþróttaskó, sem eru þjálir og þægilegir, en hef gúmmískó til vara, ef ég býst við miklu vatnssulli. Stundum er ég með gúmmískóna í töskunum, skelli mér í þær yfir djúpar ár og hengi strigaskóna um hálsinn á meðan.
Valdimar K. Jónsson:
Snemma hættum við hjónin að nota þröngu reiðstígvélin, sem fyllast af raka, þótt þurrt sé í veðri. Um skeið var ég í víðum stígvélum, sem loftuðu betur. Síðustu ár hef ég notað fóðraða reiðskó, sem eru úr gúmmí upp á rist og gerviefni að ofan, sem þolir vel bleytu. Það er miklu þægilegra að vera í skóm en stígvélum. Ég hef þó vaðstígvél í trússinu og fer stundum í þau, þegar ég býst við vatnsmikilli á eða öðru vatnasulli á dagleiðinni.
Viðar Halldórsson:
Núorðið ríð ég í uppháum leðurskóm með heilli tungu, en hef reiðstígvél í trússinu til notkunar, ef útlit er fyrir mikla vætu eða vöð.
Þormar Ingimarsson:
Yfirleitt er ég í reiðstígvélum, sem eru aðeins víðari að ofan en venjuleg reiðstígvél. Oft hef ég sokka í vasanum og skipti um sokka á miðjum degi, ef heitt er í veðri og ég hef svitnað á fótunum. Ég hef prófað að vera í skóm, en oft lendir maður í einhverju vatnssulli og þá er öruggara að vera í stígvélum. Í skóm er maður stundum að beygja fæturna upp til að forðast vatnið og verður þá ekki eins öruggur í hnakknum. Mér finnst ókostir við skó vera meiri en ókostir við stígvél.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 3.tbl. 2003