Skrautlegir bandamenn

Greinar

Erfiðir eru helztu bandamenn Bandaríkjanna í stríðsmálum. Donald Rumsfeld stríðsmálaráðherra lenti í vandræðum um daginn við að hindra ályktun Atlantshafsbandalagsins um rannsókn á fjöldamorðum á vegum stjórnvalda í Úzbekistan. Bretar og fleiri höfðu lagt til, að Nató léti vita af sér.

Rumsfeld óttaðist, að ályktunin mundi spilla fyrir samkomulagi um bandarískar herstöðvar í þar eystra. Vegna þessara herstöðva tekur George W. Bush Bandaríkjaforseti á móti Islam Karimof forseta Úzbekistan, þótt hann sé snargeðveikur og sjóði stjórnmálaandstæðinga í potti.

Pakistan er til enn meiri vandræða. Þar er valdaræningi, sem stjórnar einu fjölmennasta ríki heims í skjóli hersins með samkomulagi við ofstækismenn í trúmálum, sem hafa komið upp atómvopnum milli þess sem þeir þylja kviður úr Kóraninum, Þeir eru helztu stuðningsmenn talibana í Afganistan.

Pakistan er svo frumstætt land, að konum er raðnauðgað út af rifrildi milli annarra aðila og þær síðan settar í fangelsi, meðan glæpamennirnir ganga lausir. Þar eru konur afklæddar á almannafæri fyrir að taka þátt í alþjóðlegu maraþonhlaupi. Á milli þess er Musharraf ríkisstjóri í kaffi hjá Bush.

Pakistan er eldsmiðja andstöðu múslima við Bandaríkin og Vesturlönd. Þar eru skólarnir, sem afturhaldsættir Sádi-Arabíu kosta til að efla trúarofstæki. Úr skólunum koma sjálfsmorðsveitir, sem láta að sér kveða í Afganistan og Írak, á Spáni og Bretlandi, Bandaríkjunum og Ítalíu.

Auðvitað finna Pakistanar ekki Osama bin Laden, af því að þeir skjóta skjólshúsi yfir hann. Þeir eru í þeirri undarlegu stöðu að hýsa helztu óvini Bandaríkjanna og vera bandamenn þeirra um leið. Þannig leiðir undarleg stríðsstefna Bandaríkjanna til ólíklegrar niðurstöðu.

Pakistan er ekki svartasta afturhald, sem til er í heiminum, um þessar mundir, en það er gjaldþrota ríki almennrar örbirgðar, þar sem hver króna fer í rekstur atómvopna og hers. Svartari eru bandamenn Bandaríkjanna í Sádi-Arabíu, þar sem ofstækið í afturhaldi múslima á rætur sínar.

Undarlegast af öllu, er, að heimsveldi með þessa bandamenn og Mubarak í Egyptalandi að auki, skuli prédika lýðræði múslima og reyna að koma þar upp kosningum með handafli.

DV