Skrifað í skjóli.

Greinar

Langt er síðan Blaðamannafélag Íslands skipaði Indriða G. Þorsteinsson í siðareglunefnd blaðamanna. Þá var hann ekki virkur þáttakandi í hvassri umræðu fjölmiðla um menn og málefni. Þetta má segja blaðamannafélaginu til vorkunnar.

Ýmsum finnst nærri sér höggvið í fjölmiðlum. Siðareglunefndin var meðal annars stofnuð til aðstoðar þeim. Hún átti að taka við kærum. Og hún átti að áminna blaðamenn, sem reyndust hafa brotið siðareglur félagsins.

Í rauninni ættu engir starfandi blaðamenn að sitja í siðareglunefnd. En allra sízt menn á borð við ritstjóra, leiðarahöfunda og höfunda kjallaragreina. Enda hefur engum þeirra dottið slíkt í hug. Nema Indriða G. Þorsteinssyni.

Allir þessir menn geta í daglegu starfi orðið tilefni málareksturs fyrir siðareglunefnd. Þessi þriggja manna nefnd verður óstarfhæf, ef einn nefndarmanna þarf að víkja úr sæti í eigin máli. Nóg er til af hæfum mönnum í nefndina.

Það leysir engan vanda að víkja úr sæti í einstöku máli. Það hlýtur að vera óbærilegt fyrir hina nefndarmennina tvo að úrskurða með hjálp varamanns í máli þriðja nefndarfélagans. Þann brunn þarf blaðamannafélagið að byrgja.

Við skulum að þessu sinni láta Svarthöfða alveg liggja milli hluta. Þar er kastað skít í skjóli nafnleysis. Alveg eins og í Þöglum og Staksteinum hinna fornlegri og samvizkusnauðari fjölmiðla landsins.

Þetta nafnleysi er úfur fyrri tíma, er blaðaskrif voru rætnari og persónulegri. Erlendis þekkist það tæpast lengur, nema í formi góðlátlegs hjals, sem engan særir. Í sumum íslenzkum dagblöðum sitjum við hins vegar að forneskjunni.

Siðareglunefnd Indriða G. Þorsteinssonar hefur úrskurðað, að sig bresti úrskurðarvald um skrif huldumanna á borð við Svarthöfða. Byggist þetta á því, að nafnið Svarthöfði finnst ekki í félagaskrá blaðamannafélagsins.

Við skulum aðeins tala um Indriða G. Þorsteinsson sem fastan dálkahöfund undir eigin nafni. Sem slíkur er hann í sömu stöðu og aðrir dálkahöfundar, leiðarahöfundar og ritstjórar. Hann þarf að gagnrýna menn og málefni.

Umræddir menn geta móðgazt, með réttu eða röngu. Þeir verða að geta treyst siðareglunefnd. Þeir mega ekki sjá þar nefndarmenn, sem eiga á hættu að þurfa að víkja úr sæti í eigin máli. Þetta skilja allir nema lndriði.

Stétt blaðamanna á sífellt undir högg að sækja í almenningsálitinu. Stofnun siðareglunefndar var tilraun til að efla álit manna á blaðamönnum. Hún átti að sýna, að blaðamönnum væri ljós ábyrgð sín og vildu standa víð hana.

Nú er hætt við, að almenningur líti öðrum augum á silfrið. Siðareglunefnd er af sumum þegar talin liður í samtryggingarkerfi blaðamanna. Það sýni, að siðferði stéttar blaðamanna sé ekki í nógu góðu lagi. Þennan brunn þarf strax að byrgja.

Blaðamönnum má vera ljóst, að siðareglunefnd stendur og fellur með traustinu. Ef hún fær ekki augljós mál til meðferðar, er pottur brotinn. Þá er ljóst, að menn treysta henni ekki. Og sú er einmitt þróunin um þessar mundir.

Siðareglunefnd eiga eingöngu að skipa menn, sem ekki eiga í neinum útistöðum um menn og málefni. Til dæmis menn, sem þekkja blaðamennsku, en starfa nú á þeim sviðum þjóðlífsins, þar sem sviptingar eru minni.

Það er nefnilega ekki aðeins hægt að skrifa í skjóli nafnleysis. Það er líka hægt að skrifa í skjóli nefndar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið