Skrílræði miðborgarinnar

Greinar

Bandarískur rannsóknarlögreglumaður, sem verið hefur hér að undanförnu, furðar sig á, að boðið skuli vera upp á vandamál með því að leyfa ölvuðu fólki að safnast hundruðum saman í miðborg Reykjavíkur að næturlagi. Enda hefur miðborgin reynzt vera hættulegur staður.

Þetta vandamál var í Amsterdam fyrir nokkrum áratugum. Þá var ákveðið að senda sérsveitir til að hreinsa miðborgina og halda henni hættulausri. Síðan hefur verið hægt að ganga óáreittur um ferðamannastaði heimsborgarinnar á öllum tímum sólarhringsins.

Um nánast allar höfuðborgir Vesturlanda gildir, að þeim borgarhluta er haldið hreinum, sem svarar til gamla bæjarins í Reykjavík. Þetta eru hinar eiginlegu miðborgir, svæðin umhverfis helztu opinberar byggingar, ferðamannastaði, menningar-, veitinga- og kaffihús.

Íslenzkir ferðamenn geta farið óttalausir á öllum tímum sólarhringsins um Leicester-torg í London, Concorde-torg í París, Times-torg í New York, Rådhuspladsen í Kaupmannahöfn og Dam-torg í Amsterdam. Þeir geta hins vegar ekki farið óttalausir um Lækjartorg.

Í erlendum borgum má finna hættulega staði. En þeir eru afviknir, fjarri hefðbundnu skemmtana- og menningarlífi, ferðamannastöðum og helztu stofnunum samfélagsins. Þannig er hættulegt að fara um Harlem á Manhattan, en hættulaust að fara um Times-torg.

Fyrir nokkrum árum var löggæzla efld í New York. Tekið var upp á að taka menn fasta og sekta fyrir minni háttar afbrot á borð við að kasta rusli eða kasta af sér vatni á almannafæri. Kenningin að baki var sú, að stórglæpir þrifust í andrúmslofti smáglæpa.

Árangurinn var undraverður. Alvarlegum glæpum fækkaði gífurlega í borginni á örfáum árum. Aðferðafræðin hefur síðan breiðst út. Veggjakrot er hreinsað samdægurs, drykkjurútar hirtir upp. Þeir, sem létta af sér á útihurðir þinghúsa, verða að greiða háar sektir.

Árum saman hefur verið hvatt til, að fetuð yrði sama slóð í Reykjavík. Ákveðið yrði í eitt skipti fyrir öll, að miðbærinn frá Garðastræti að Hlemmi væri griðastaður þjóðarinnar, þar sem venjulegt fólk gæti gengið um án þess að verða fyrir árásum ölóðra ofbeldismanna.

Reykjavík er að verða þekkt víða um heim fyrir ölæði og unglingaælur að næturlagi, rifrildi og slagsmál. Ferðamenn skrifa um berskjaldaðan nöturleika og firringu svokallaðs skemmtanalífs í miðborginni, þar sem fólk veltist og skríður um götur í eymd og volæði.

Gegndarlaust skrílræði næturinnar í Reykjavík er ekki náttúrulögmál, heldur byggist á þeirri ákvörðun yfirvalda að hafast ekki að. Hægt er að stöðva skrílræðið eins og gert var á Dam- og Times-torgum, ef menn nenna og treysta sér til að taka slaginn í upphafi.

Það jafngildir ekki lögregluríki, þótt skrílræði sé lagt af. Það þýðir aðeins, að ákveðið hafi verið, að ekki gildi hér áfram linari mannasiðir en á Vesturlöndum almennt. Það jafngildir því aðeins, að ekki verði lengur talið sjálfsagt eða sniðugt að pissa á hurð Alþingis.

Opnunartími skemmtistaða þarf annaðhvort að vera frjáls eða skaraður. Nóg þarf að vera til af geymslugámum fyrir drykkjurúta. Rífa þarf foreldra frá sjónvarpinu til að sækja börnin. Ofbeldisdómar þurfa að þyngjast. Gera þarf lögregluna sjáanlega. Stundum þarf táragas.

Einkum er það sinnuleysi ráðamanna, sem veldur því, að ölóðum ofbeldismönnum er veitt almennt veiðileyfi, með endurteknum og alkunnum afleiðingum.

Jónas Kristjánsson

DV