Skuggabjörg

Frá Þverárrétt í Fnjóskadal um Skuggabjargaskóg að Laufási við Eyjafjörð.

Mela- og Skuggabjargaskógur er meðal stærstu og mestu birkiskóga landsins. Þar er birkið síst lakara en í Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi og Bæjarstaðaskógi. Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina Skuggabjörg og hluta jarðarinnar Mela árið 1948, en þær voru þá báðar komnar í eyði. Skógurinn var svo friðaður fyrir beit. Að sama skapi er langt liðið síðan skógurinn var nýttur og því hefur hann þróast sem náttúruskógur. Hægt er að ímynda sér að svona hafi landið litið út við landnám. Þetta er fyrst og fremst birkiskógur, lítið er um furu og greni. Í skóginum er mjög gott berjaland. Fylgt er dráttarvélaslóð skógræktarinnar alla leið. Fnjóská liðast um fyrir neðan skóginn.

Förum frá Þverárrétt um 400 metra suður áreyrarnar og yfir Fnjóská, síðan aðeins norður með landinu handan árinnar, þar sem er einstigi niður í ána, sem við förum upp. Þar komum við á dráttarvélaslóð um Skuggabjargaskóg að Laufási. Við förum framhjá eyðibýlinu Skuggabjörgum og förum neðan við Gæsagil og Nóngil. Að lokum komum við að þjóðvegi 83 um Eyjafjörð og förum yfir veginn að Laufási.

10,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Gönguskarð.
Nálægar leiðir: Uxaskarð, Flateyjardalsheiði, Draflastaðafjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson