Skuldunautar sendiherrans

Greinar

Þekktur Íslendingur, sem ferðaðist til Kína án þess að þurfa sjálf að borga fyrir það, sagði fyrir helgina í blaðagrein, að hundruð, ef ekki þúsundir Íslendinga hefðu heimsótt Kína fyrir milligöngu kínverska sendiherrans. Lægri talan er sennilegri, en óhugnanlega há samt.

Greinarhöfundur vakti sérstaka athygli á, að mikið af þessu fólki væri úr röðum yfirstéttarinnar, þar á meðal æðstu stjórnmála- og embættismenn ríkisins. Hvatti hún þetta fólk til að taka saman höndum til varnar sendiherranum, núna þegar að honum er sótt.

Vitað er um einn ferðalanganna, að hann telur sig ekki eiga pólitíska skuld að gjalda sendiherranum eða ríkisstjórninni að baki honum. Það er Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem tók eðlilega á málunum, þegar varaforseti Taívans vildi koma hingað til lands.

Við vitum ekki um hina, en vonandi eru fáir sama sinnis og greinarhöfundur að telja sig þurfa að endurgjalda kínverska sendiherranum greiða með því að styðja ömurlegan málstað hans og ríkisstjórnarinnar að baki honum. Slíkt héti ekkert annað en spilling.

Ein af aðferðum ríkisstjórnar Kína til að koma óviðurkvæmilegum áhugamálum sínum á framfæri í öðrum löndum er að hlaða gestrisni á fólk, sem það telur vera í lykilstöðum í þjóðfélaginu. Þetta er gömul mútuaðferð, sem kínversk stjórnvöld telja vera í fullu gildi.

Önnur aðferð, sem ríkisstjórn Kína beitir til að efla málstaðinn, er að taka í gíslingu fé og fyrirhöfn þeirra manna, sem ginntir hafa verið til að líta á Kína sem taumlausa markaðsmöguleika. Þetta minnir á, þegar lénsherrar tóku syni lénsmanna í fóstur á miðöldum.

Í Kína ríkja ekki fastar leikreglur um stöðu fjár og fyrirhafnar eins og við þekkjum á Vesturlöndum. Yfirvöld ríkisins og einstakra héraða fara með slíkt að geðþótta og nota gerræðisvaldið óspart til að þvinga útlenda gróðahyggjumenn til að þjónusta hagsmuni sína.

Mörg vestræn stórfyrirtæki hafa sökkt miklum fjármunum í þessa botnlausu mýri. Forstjórar þeirra eru eins og útspýtt hundsskinn við að sannfæra ráðamenn vestrænna þjóða um að þeir eigi að vera góðir við Kínastjórn og leyfa frekju hennar að ná fram að ganga.

Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessu. Tilraun var gerð til að setja á fót íslenzka lakkrísverksmiðju í Kína. Þegar allt var komið í gang, skiptu stjórnvöld á staðnum um tromplit í miðju spili og bjuggu til sjónhverfingar, sem gerðu verksmiðjuna gjaldþrota.

Menn eiga erfitt með að læra af mistökum annarra. Þess vegna eru sumir Íslendingar í biðröð hjá kínverska sendiherranum til að fá tækifæri til að festa fé og fyrirhöfn í Kína eða viðskiptum við Kína. Sumir þeirra munu vafalaust styðja pólitísk markmið Kínastjórnar.

Jarðarkringlan er stór. Hún er þúsund sinnum stærri en hugsanlegt áhrifasvið samanlagðra íslenzkra athafnamanna. Til eru ótal ríki milljónaþjóða, þar sem fé og fyrirhöfn útlendinga njóta verndar laga og réttar án þess að vera stjórnað að geðþótta stjórnvalda.

Þess vegna er bezt, að kínverski sendiherrann og ríkisstjórnin að baki honum framkvæmi ógeðfelldar hótanir um að tefja fyrir viðskiptum Kínverja og Íslendinga. Það verður til þess eins að draga úr líkum á, að Íslendingar verði fyrir tjóni af slíkum viðskiptum.

Í umræðunni um þessi mál eru marklaus innlegg þeirra, sem telja sig þurfa skuld að gjalda fyrir að hafa ferðazt til Kína án þess að borga sjálfir fyrir það.

Jónas Kristjánsson

DV