Skúringatæknirinn á Caruso

Veitingar

Caruso er elskulegur veitingastaður í Bankastræti með ódýrum hádegismat, fiski dagsins á 1490 krónur. Oft hef ég borðað þar undanfarin ár og jafnan verið sáttur. Þangað til í vikunni, að ég fékk seigan og þurran skötusel með humarsósu, bakaðri kartöflu og pönnusteiktu grænmeti. Sósan var það eina góða við þennan rétt, kartaflan var risavaxin kolefnisnáma. Raunar hef ég sjaldan fengið svona illa eldaðan fisk hér á landi. Nóg er af ferskum fiski og kokkar kunna tímasetningar á eldun fiskjar. Líklega hefur enginn kokkur verið á vaktinni þennan dag á Caruso og skúringatæknirinn hlaupið í skarðið.