Friðrik V er ekki lengur bezta veitingahús landsins, heldur bara eitt af fimm beztu. Friðrik hefur ekki tekizt að vinna betur úr sérstöðu sinni sem almannatengli hráefna úr Eyjafirði. Meðferð hans á skyri er of þétt fyrir eftirrétti. Þeir verða of þungir. Skyr á að vera létt og virka þægilega í maga. Í gær var þrenns konar skyr í boði í listagilinu á Akureyri. Langbezt var þeytt skyrfroða með eyfirzkum bláberjum. “Skyr tiramisu” var mun þyngra en venjulegt tiramisu úr mascarpone-osti. Og “skyr brûlée” í eggjaskurn var þétt sem steinn, gerólíkt hinni hefðbundnu létt-hugsun að baki crème brûlée.