Skýr og einbeittur vilji

Greinar

Samkeppnisstofnun telur, að Félag eggjaframleiðenda hafi notið samþykkis landbúnaðarráðuneytisins fyrir hluta af alvarlegum og ámælisverðum brotum á samkeppnislögum. Stofnunin notar samt ekki niðurstöðuna til að draga ráðuneytið til hluta ábyrgðinnar.

Eðlilegt hefði verið að sekta bæði félagið og ráðuneytið, því að brotin eru skýr, að mati Samkeppnisstofnunar. Heimilt er að sekta aðila um 40 milljónir króna eða um 10% af ársveltu þeirra, ef hagnaðurinn af brotunum er meiri. Þetta þorði Samkeppnisstofnun ekki.

Samt telur stofnunin ljóst, að Félag eggjaframleiðenda hafi árin 1994 og 1995 hvatt til samráðs um verð og afslætti á eggjum, haft forgöngu um skiptingu eggjamarkaðar eftir svæðum og viðskiptavinum og reynt að takmarka aðgang nýrra aðila að markaðinum.

Samkeppnisstofnun notar orðin “alvarleg og ámælisverð” um brot félagsins. Hún segir líklegt, að þau hafi leitt til hærra eggjaverðs en ella hér á landi. Hún telur líka, að skipting eggjamarkaðarins hafi farið fram með vitund og vilja landbúnaðarráðuneytisins.

Stofnunin bendir á, að félagið starfi í skjóli búvörulaga og hafi ákveðnu hlutverki að gegna við framkvæmd þeirra, en hafi notað aðstöðuna til að hamla gegn samkeppni og vinna gegn markmiðum samkeppnislaga. Hafi félagið sýnt “skýran og einbeittan” brotavilja.

Eftir lýsingar stofnunarinnar vekur furðu, að hún skuli ekki láta til skarar skríða gegn svo forhertum aðilum, sem hafa “skýran og einbeittan” vilja til “alvarlegra og ámælisverðra” lögbrota. En þar njóta félagið og ráðuneytið þess að vera ofan við lög og rétt.

Þrátt fyrir kjarkleysi Samkeppnisstofnunar er úrskurður hennar gagnlegur, því hann veitir innsýn í spillt einokunarkerfi, þar sem hagsmunaaðilar í landbúnaði og landbúnaðarráðuneytið gera samsæri gegn þjóðinni um að halda uppi óeðlilega háu matarverði í landinu.

Þetta samsæri kemur skýrast í ljós í búvörusamningum, sem ráðuneytið gerir við hagsmunaaðila landbúnaðar um tilflutning á milljörðum króna á hverju ári úr vasa skattborgaranna til hagsmunaaðilanna og um innflutningshöft til að halda uppi okri og einokun.

Í þessum aðgerðum sem öðrum kemur ráðuneytið ekki fram sem gæzluaðili þjóðarhagsmuna, heldur hegðar sér eins og hluti þjófaflokks, sem skiptir með sér ránsfeng búvörulaganna. Ráðuneytið er ekkert annað en hluti af viðamiklu hagsmunagæzlukerfi landbúnaðarins.

Pólitísku öflin hafa ekki frekar en Samkeppnisstofnun manndóm í sér til að hamla gegn skýrum og einbeittum einokunarvilja ráðuneytis og hagsmunaaðila. Þau láta yfir sig ganga hvern búvörusamninginn á fætur öðrum án þess að rísa upp og reka ósómann af höndum sér.

Eindregnast er þetta ástand, þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sitja að völdum í landinu. Með stuðningi þéttbýlisþingmanna sinna gæta þessir flokkar alltaf ýtrustu hagsmuna landbúnaðarins gegn vægustu hagsmunum neytenda og skattgreiðenda.

Pólitísku öflin haga sér svona, af því að kjósendur halda áfram að þola sem neytendur og skattgreiðendur, að fjármunum þjóðarinnar sé sóað í búvörusamninga í stað þess að halda uppi vel stæðu þjóðfélagi með fullri reisn, öflugum skólum og virku heilbrigðiskerfi.

Þetta ástand hefur gert einokunarkerfi landbúnaðarins að ríki í ríkinu, sem hefur “skýran og einbeittan” vilja til “alvarlegra og ámælisverðra” lögbrota.

Jónas Kristjánsson

DV