Skýrar línur eru beztar.

Greinar

Þrátt fyrir hin langvinnu vandamál, sem fylgt hafa álverinu í Straumsvík, er samstarfsform ríkisins og útlendinga á þeim stað mun heppilegra en önnur form, sem reynd hafa verið eða rætt hefur verið um. Bezt er, að Íslendingar eigi orkuna og hinir erlendu aðilar stóriðjuna.

Við vitum, að íslenzkir samningamenn hafa stundum farið halloka í viðskiptum við Svisslendinga. Við vitum, að hinir síðarnefndu hafa reynzt frekir til fjárins. Og við vitum ekki, hvernig nú muni ganga tilraunir okkar manna til að leiðrétta illa skekkt orkuverð.

Eigi að síður eru línurnar skýrar í þessum viðskiptum. Við sitjum öðrum megin við borðið og þeir hinum megin. Við reynum að fá sem mest fyrir orkuna og þeir reyna að borga sem minnst. Þetta er venjulegt viðskiptaform, sem við hljótum að geta lært eins og aðrir.

Ekki eru fýsilegar nýjustu hugmyndir um, að hinir erlendu aðilar gerist líka aðilar að orkunni. Þær brjóta í bága við gamlan og gróinn þjóðarvilja, sem segir, að orkan skuli sem auðlind ætíð vera í eigu Íslendinga einna. Ekkert bendir til, að álit almennings á þessu hafi breytzt.

Ástæðan fyrir þessum hugmyndum er óttinn við, að virkjun á orku fyrir stóriðju muni auka hættulega mikið skuldir okkar í útlöndum, sem séu þegar orðnar of miklar. En þessi hætta ætti raunar að kalla á önnur viðbrögð en þau, að við látum útlendinga fjármagna virkjanir.

Hinn mikli fjármagnskostnaður orkuvera og tilheyrandi skuldasöfnun í útlöndum á að kenna okkur að fara varlega í samninga um stóriðju og að semja alls ekki um orkuverð, sem ekki nægir til að standa undir vöxtum og afborgunum af nýjum orkuverum.

Ekki er nóg, að orkuverðið standi undir gömlum og hálfafskrifuðum orkuverum, sem reist voru á hagkvæmari tímum. Verðið þarf að geta staðið undir jafngildum orkuverum, sem reist eru á samningstíma orkuverðsins, hugsanlega við verri aðstæður en hin fyrri.

Alveg eins óæskileg og eignaraðild útlendinga að orkuverum er óæskileg eignaraðild íslenzka ríkisins að stóriðjunni. Reynslan frá Grundartanga sýnir, að ríkið getur illa leikið það tvöfalda hlutverk að vera bæði seljandi og kaupandi orkunnar.

Við þær aðstæður skortir hinar skýru línur, sem eru í sambúðinni við Alusuisse í Straumsvík. Enda er þegar farið að koma í ljós, að erfiðara verður að koma upp sanngjörnu orkuverði til Grundartanga en Straumsvíkur. Höfum við ekki líka dæmið af Áburðarverksmiðjunni?

Ekki er viturlegra það afbrigði stefnu eignaraðildar að stóriðju, sem felst í kröfunni um íslenzka meirihlutaeign. Slík stefna er til þess eins fallin að soga brott stórfé, sem betur ætti heima í uppbyggingu atvinnu í léttari greinum iðnaðar.

Það er staðreynd, að sérhvert atvinnutækifæri í stóriðju er margfalt dýrara og sumpart mörgum tugum sinnum dýrara en atvinnutækifæri í léttum iðnaði á borð við laxarækt og tölvugerð. Við eigum að nota okkar takmarkaða fé í léttan iðnað fremur en í stóriðju.

Við eigum að láta útlendinga um að fjármagna hin dýru atvinnutækifæri í stóriðju. Við eigum einnig að hvetja þá til þess, svo að við fáum aukinn arð af orkunni, sem nú rennur að mestu arðlaus til sjávar. En við megum ekki heldur gera fleiri mistök í samningum um orkusölu.

Jónas Kristjánsson.

DV