Skýrt og klárt já og nei

Greinar

Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr í hvalveiðimálinu. Hún er einhuga um, að hvalveiðar hefjist, bara ekki á þessu sumri. Þannig hefur vorað hjá stjórninni í mörg ár og þannig mun vora í mörg ár enn. Stefnan er skýr. Hún þýðir bæði já og nei, að hætti stjórnvitringa.

Vandséð er, að ríkisstjórnin geti haft aðra skoðun á málinu. Hún þarf að friða hugsjónamennina, sem vilja ekki, að misvitrir útlendingar segi þjóðinni fyrir verkum. Og hún þarf að taka tillit til margvíslegra annarra hagsmuna en þeirra einna, sem lúta að hvalveiðum.

Utanríkis- og sjávarútvegsráðherra hafa orð fyrir ríkisstjórninni og segja málið vandasamt. Velta þurfi því lengi fyrir sér í ýmsum nefndum og á ríkisstjórnarfundum. Svo heppilega vill til, að vangavelturnar ná jafnan fram á vor og missa því af þinglegri afgreiðslu.

Sælkerarnir, sem hafa í sjö ár verið að streitast við að éta sama hvalinn hjá Úlfari Eysteinssyni á Þremur frökkum, geta áfram hlakkað til þess fjarlæga sumars, þegar leyft verður að veiða “í smáum stíl til innanlandsneyzlu”, svo að notað sé orðalag utanríkisráðherra.

Örfáir hvalir á ári hverju mundu vafalaust nægja innanlandsmarkaði og verða tæpast nokkur gullkista væntanlegum hvalveiðimönnum. Samtök þeirra telja, að í framhaldi af slíkum veiðum megi fá Japani til að kaupa hvalkjöt, þótt þeir hafi lofað að gera það ekki.

Japanir kaupa ekki hvalkjöt, af því að þeir þurfa að flytja mikið af vörum til útlanda og eru dauðhræddir við að æsa umheiminn upp á móti japönskum vörum. Gaman verður að sjá, þegar íslenzkum hvalveiðisinnum tekst að fá Japani til að fremja efnahagslegt harakiri.

Við erum háðir umheiminum eins og Japanir. Við þurfum að fá fólk á Vesturlöndum til að kaupa vörur frá okkur. Við viljum, að það haldi áfram að kaupa fiskinn okkar tollfrítt, þótt við leggjum ofurtolla á matvælin þeirra. Við viljum ekki raska ró viðskiptavinanna.

Lengi hefur verið vitað, að fá mál eru eins fallin til að koma venjulegum Vesturlandabúum úr andlegu jafnvægi og hvalveiðar. Fólk flykkist í hvalfriðunarsamtök, tekur hvali persónulega í fóstur og gengur berserksgang við að knýja fram viðskiptabann á hvalveiðiþjóðir.

Meiri líkur eru á, að Norðmenn geti leyft sér að synda gegn straumi umhverfisálitsins. Sjávarútvegur þeirra er ríkisstyrkt aumingjagrein, haldið uppi af olíugróða. Ef Norðmenn geta ekki selt útlendingum fisk, er það þeim dýrt spaug, en tæplega efnahagslegt sjálfsmorð.

Hér færi hins vegar allt á hvolf, ef Bandaríkin og Evrópusambandið settu okkur í viðskiptabann vegna veiða á hval fyrir markaði, sem ekki eru til. Þetta er það, sem ríkisstjórn okkar er að fást við, þegar hún segir, að hvalveiðar hefjist fortakslaust, bara alls ekki núna.

Ríkisstjórnin er að hugsa um heildarhagsmuni þjóðarinnar og verðleggja þá. Niðurstaða hennar hefur hingað til verið og verður áfram sú, að minni hagsmunir verði að víkja fyrir meiri. Sú hin sama verður niðurstaða annarra ríkisstjórna, sem fá vandræðamálið á sitt borð.

Ríkisstjórnin og sérfræðingar hennar vita, að málið verður ekki leyst með rökum, allra sízt vísindalegum rökum. Það ræðst af tilfinningalegum ástæðum, hvort hvalveiðar okkar muni leiða til gagnaðgerða af hálfu aðila, sem hafa afl til að valda okkur búsifjum.

Í slíkri stöðu getur ríkisstjórnin lítið gert annað en að ítreka trúarjátningu hvalveiðanna, með óvissum dómsdegi. Stefnan felur í sér skýrt og klárt já og nei.

Jónas Kristjánsson

DV