Slæmt andrúmsloft siðferðis

Punktar

Á TPM CAFE HEFUR VERIÐ LÍFLEG UMRÆÐA um bandaríska konu, sem vann á Keflavíkurvelli og var rekin fyrir að eiga barn með Íslendingi utan hjónabands. Hún giftist manninum, átti barnið á Íslandi og skildi síðan fyrir fimm árum. Nú vill hún komast aftur til Bandaríkjanna.

KONAN SÉR EFTIR ÝMSU Á ÍSLANDI. Hún hrósar skólum, ódýrri heilsugæzlu, hreinum götum og miklu öryggi gegn glæpum. Hún býst við, að öll slík atriði verði lakari í Bandaríkjunum, en vill samt fara heim. Kannski er það bara eðlileg heimþrá, svo sem sumir halda fram á spjallrásinni.

EN HÚN HEFUR RÖK Á MÓTI. Hún vill ekki ala barnið upp í því “slæma andrúmslofti siðferðis”, sem ríkir á Íslandi. Hún vill ekki, að barnið alist upp í landi, þar sem fólk sækir ekki kirkju á sunnudögum, veitir samkynhneigðum of mikil réttindi og kennir unglingum umgengni í kynferðismálum.

ÞAR ER KOMIÐ AÐ KJARNA MÁLSINS. Hálf bandaríska þjóðin hefur allt önnur viðhorf til lífsins en Íslendingar hafa. Konan er að velja milli bandarískra og íslenzkra viðhorfa og vill heldur þau bandarísku. Það er hennar réttur. Bandaríska umræðan um mál hennar er fróðleg saga um gjá milli þjóða.

HELMINGUR BLOGGARANNA STYÐUR ÍSLAND og segir samhengi í góðum skólum annars vegar og viðhorfa á Íslandi til trúar, kynhneigðar og kynferðismála hins vegar. Ísland sé bara siðmenntað land á sömu braut og önnur lönd í Evrópu og Suðaustur-Asíu. Bandaríkin séu hins vegar á sérleið.

SAGNFRÆÐINGURINN NIALL FERGUSON segir raunar svipað í góðu viðtali Morgunblaðsins í gær. Hann segir, að Ísland líkist meira Evrópu en Bandaríkjunum og muni áfram hafa meira á henni að græða. Enda sé Evrópa almennileg við smáríki meðan Bandaríkin valta einfaldlega yfir stuðningsríki sín.

DV