Slagsíður á Alþingi

Greinar

Þegar lög eru sett á Alþingi til að setja niður deilur, er ekki hægt að reikna með efnahagslega hagkvæmri niðurstöðu. Pólitísk hagkvæmni er allt annað en efnahagsleg hagkvæmni og verður oft að ráða ferðinni til þess að halda sæmilegum friði í þjóðfélaginu.

Sjávarútvegsfrumvarpið, sem rætt hefur verið um og deilt að undanförnu á Alþingi, er dæmigerð tilraun af þessu tagi. Meginhlutverk þess er að koma til móts við sjónarmið sjómanna, sem leiddu til átaka á vinnumarkaði í vetur. Því er stefnt gegn svonefndu kvótabraski.

Frumvarpið felur í sér auknar hömlur á sölu kvóta og dregur þannig úr möguleikum kvótakerfisins til að kalla á sjálfvirka hagræðingu í greininni, svo sem með samþjöppun kvóta á færri og virkari hendur. Frjáls sala er bezta leiðin til að jafna framboð og eftirspurn.

Bezt hefði verið að láta við þær breytingar sitja að setja á fót nefnd sjómanna og útvegsmanna til að úrskurða, hvort kvóti sé fluttur fram og aftur milli skipa til þess eins að rýra kjör sjómanna; og banna, að kostnaður vegna kvótakaupa komi niður á aflahlut sjómanna.

Því miður var ekki hægt að ná sátt um slíka leið, því að of margir aðilar vildu einnig koma böndum á kvótasölur sem slíkar, enda eru margir Íslendingar leynt og ljóst andvígir markaðsbúskap. Velferðarstefna í atvinnulífi er nær hjarta margra þingmanna en markaðshyggjan er.

Annað dæmi gefur góða innsýn í ríkjandi viðhorf á Alþingi. Stjórnarandstaðan er á móti lagafrumvarpi um lyfjasölu, af því að það færir lyfjasölu í þéttbýli að nokkru leyti inn í stórmarkaði og lækkar álagningu og þar með lyfjaverð í þéttbýli umfram lyfjaverð í dreifbýli.

Þessi afstaða felur í sér, að margir þingmenn geta ekki sætt sig við, að lífskjör batni í þéttbýli, ef það eykur mismun dreifbýlis og þéttbýlis. Þeir vilja jöfnuð og þeir vilja jöfnuð í átt til fátæktar, ef ekki er kostur á öðru. Svo rík er andstaðan í þjóðfélaginu gegn markaðsbúskap.

Í rauninni eru þingmenn um leið að ganga erinda lyfsala, sem eru áhrifamiklir og andvígir auknum markaðsbúskap í lyfsölu. Þetta er í samræmi við, að Alþingi gengur erinda allra annarra þrýstihópa, sem hafa aðstöðu til að láta að sér kveða umfram venjulega borgara landsins.

Sáttafrumvarp sjávarútvegsráðherra um kvótakerfið, breytingartillögur sjávarútvegsnefndar við það sama frumvarp, svo og andstaðan við lyfsölufrumvarpið endurspegla það hlutverk, sem Alþingi hefur tekið að sér sem sáttasemjari milli hávaðasamra þrýstihópa.

Auðvitað á Alþingi fremur að leita sátta en efna til úlfúðar með setningu laga. Heppilegt er, að það setji lög, sem þjóðin sættir sig við að fara eftir; eða að það fari að minnsta kosti eins konar meðalveg milli ólíkra sjónarmið á þann hátt, að allir séu hæfilega ósáttir.

Því miður hefur þessi fagra mynd skekkzt í tveimur atriðum, sem hér hefur verið vikið að. Í fyrsta lagi er á Alþingi óeðlileg slagsíða gegn tveimur þáttum þjóðlífsins, annars vegar gegn þéttbýlinu, einkum höfuðborgarsvæðinu; og hins vegar gegn frjálsum markaðsbúskap.

Í öðru lagi ríkir vaxandi ójafnvægi annars vegar í áhrifum vel skipulagðra þrýstihópa á alþingsmenn og áhrifum almannahagsmuna hins vegar. Víðtækir hagsmunir, svo sem hagsmunir skattgreiðenda og neytenda, verða yfirleitt að víkja fyrir háværum sérhagsmunum.

Umræður og atvæðagreiðslur á Alþingi síðustu dagana fyrir sumarfrí draga dám af þessu óeðlilega ástandi, sem veldur því, að Alþingi nýtur lítillar virðingar.

Jónas Kristjánsson

DV