Slegizt um safnahús

Greinar

Brýnna er að lina húsnæðisþrengsli Hæstaréttar en forsætisráðuneytisins, því að húsnæði Hæstaréttar hefur verið óbreytt áratugum saman, þrátt fyrir fjölgun mála og dómara, en ráðuneytið hefur smám saman getað ýtt öðrum ráðuneytum úr stjórnarráðshúsinu.

Ennfremur er ódýrara að flytja Hæstarétt fyrir 100 milljónir í safnahúsið við Hverfisgötu en að byggja yfir hann fyrir 300 milljónir króna. Það tekur auk þess skemmri tíma að flytja Hæstarétt yfir götuna en að hanna og byggja nýtt hús á ótilgreindum stað.

Þetta hefur raunar þótt sjálfsögð afleiðing af flutningi Landsbókasafnsins í Þjóðarbókhlöðuna nýju á Melavelli og flutningi Þjóðskjalasafnsins í Mjólkursamsöluna við Laugaveg. Flestir telja, að safnahúsið við Hverfisgötu henti vel sem dómhús, til dæmis Hæstaréttar.

Landsbókasafnið er fallega hannað hús með virðulegum svip, sem hæfir æðsta dómstigi landsins. Alþingi og ríkisstjórn búa þegar í gömlum og virðulegum húsum, en þriðja valdsvið ríkisins hefur skort hliðstætt húsnæði fyrir virðulegustu stofnun sína, Hæstarétt.

Með því að flytja Hæstarétt í safnahúsið er tiltölulega varanlega séð fyrir húsnæðisþörfum stofnunarinnar, enda er það sanngjarnt, því að sú stofnun hefur setið eftir á sama tíma og húsnæði Alþingis og einkum ríkisstjórnar hefur þanizt út um allar trissur.

Húsnæðisþörf Alþingis má leysa með því að kaupa skrifstofuhús Pósts og síma við Austurvöll og nota fyrir skrifstofur. Það hús má tengja neðanjarðar við gamla Alþingishúsið, sem yrði áfram fundarsalur. Því þarf ekki að byggja hið forljóta verðlaunahús Alþingis.

Póstur og sími rekur sama sem enga almannaþjónustu í Kvosinni. Sú stofnun þarf ekki nema sem svarar rými einnar verzlunar á þeim slóðum, en getur að öðru leyti haft sínar skrifstofur hvar sem er í borginni. Eðlilegt er, að stofnunin víki fyrir Alþingi við Austurvöll.

Raunar er afleitt, þegar opinberar stofnanir eða bankar þenja sig út í gömlum borgarkjörnum og hrekja á brott aðra starfsemi, sem gæðir slíka kjarna lífi. Það eru einkum bankarnir, sem hafa eyðilagt Kvosina í Reykjavík. Betra er að hafa skrifstofublokkir annars staðar.

Það er nýtt af nálinni, að forsætisráðuneytið telji sig þurfa meira pláss eftir að hafa hrakið önnur ráðuneyti úr stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Ef það er rétt, kemur vel til greina að hafa hluta ráðuneytisins í húsinu fyrir aftan, þar sem áður var menntaráðuneytið.

Forsætisráðuneytið ásælist safnahúsið við Hverfisgötu. Það er skiljanlegt, því að það hús getur auðvitað hentað til slíkra nota. En betra er að spilla ekki fyrir fyrri hugmyndum um flutning Hæstaréttar þangað og leysa heldur meintan vanda ráðuneytisins á annan hátt.

Stjórnendur forsætisráðuneytisins vilja byggja yfir Hæstarétt til að losna við keppinautinn um hús Landsbókasafnsins, þótt ráðuneytisstjórinn haldi fram, að ekkert samhengi sé þar á milli. Ummæli hans verða túlkuð sem hefðbundinn tunguklofi embættismanns.

Eini kosturinn við ásælni forsætisráðuneytisins er, að hún flýtir fyrir opnun Þjóðarbókhlöðunnar á Melunum. Ráðuneytið mun af hefðbundnum tvískinnungi ekkert til spara til að ná fram vilja sínum og þægindum, en sér eftir hverri krónu, sem fer í Hæstarétt.

Forsætisráðuneytið mun hafa sitt fram, en hefur af því lítinn sóma, enda er hann ekki æðsta boðorð þess. Þetta er eins og við er að búast af fyrri reynslu.

Jónas Kristjánsson

DV