Slípa þarf samningamenn

Greinar

Sáttasemjara ríkisins og formönnum samninganefnda ber að líta í eigin barm eftir hrakfarir í samningaferli og atkvæðagreiðslum á ofanverðum vetri og öndverðu sumri. Aðferðafræðin við gerð kjarasamninga hefur brenglazt svo, að verkföll eru orðin daglegt brauð.

Sáttasemjari hefur látið fella fyrir sér hverja sáttatillöguna og miðlunartillöguna á fætur annarri. Er nú svo komið, að tillögur af þessu tagi, sem áður voru vandlega grundaðar og vógu þungt á metunum, eru nú orðnar eins og hver önnur marklaus pappírsgögn deiluaðila.

Eðlilegt er, að breyttar áherzlur í vinnubrögðum fylgi nýjum sáttasemjara. En að þessu sinni hafa breytingarnar verið of miklar og misheppnaðar. Nauðsynlegt er að endurvekja meiri varfærni, draga úr þrýstingi á samninganefndir og fara miklu sparlegar með tillögur.

Í sjómannadeilunni hefur annað og ekki minna vandamál bætzt ofan á brestina í sáttastarfinu. Það er, að formenn samninganefnda virðast vera í hanaslag og taka hann mjög alvarlega. Þeir koma þrútnir af bræði fram í fjölmiðlum og saka hver annan um hvaðeina tiltækt.

Á oddi samninganefnda þurfa að vera lagnir og liprir menn, sem kunna þá list að fá sitt fram með góðu. Menn fá aldrei neitt út úr því að öskra hver á annan. Þess vegna hefur allur ferill sjómannasamninganna verið meira eða minna út í hött, enda ekki leitt til árangurs.

Bent hefur verið á, að miklu auðveldara hafi reynzt að semja utan Karphússins, þar sem hvorki koma við sögu sáttasemjari né formenn samninganefnda deiluaðila. Þannig hefur verið samið með friði og spekt á Vestfjörðum, án þess að nokkrum þyki það tiltökumál.

Vestfirðingar boru búnir að semja skömmu áður en hófst þriggja vikna verkfall á vegum Karphússins. Fyrir vestan hafa menn síðan gengið til verka sinna meðan allt er á hverfanda hveli í öðrum landshlutum. Enda eru skip farin að leka úr höfnum í trássi við Karphúsið.

Annað hvort verða samningaaðilar að skipta út þeim mönnum, sem lengst ganga í villigötum hanaslags, eða knýja þá til breyttra vinnubragða. Það dugir ekki, að persónuleg óvild og persónulegir skapsmunir í samskiptum einstaklinga valdi þjóðfélaginu tugmilljónatjóni.

Málsaðilar ættu núna að gera sér ferð til Vestfjarða og kynna sér vinnubrögð við hliðstæða samninga. Þar er samningaharkan ekki minni, en hæfilega blönduð slíkri lipurð og trausti, að ekki þarf einu sinni að skrifa samningsatriði á blað til þess að þau haldi árum saman.

Það er líka ófært, að sáttasemjari sé sífellt með fiðring í gikkfingri og framkalli hvað eftir annað lotur á lokuðum þrýstingsfundum með þeirri afleiðingu, að allt springur svo framan í málsaðila og niðurstaðan verður alls engin, heldur verður að byrja samningaferilinn upp á nýtt.

Eitthvað meira en lítið er að, þegar málsaðilar verða að þramma til forsætisráðherra til þess að láta hann berja í borðið og segja sér að hundskast til að taka sig saman í andlitinu og byrja að semja í alvöru og án afskipta ríkisvaldsins. En reiðilesturinn hafði þó áhrif.

Verkfallið er nú á leiðarenda. Tjónið af völdum þess verður ekki bætt að fullu. En við getum öll lært af reynslunni. Sáttasemjari þarf að endurskoða aðferðafræðina. Og málsaðilar í sjómannadeilunni þurfa að skipta sumum út og ganga betur undirbúnir til næstu samninga.

Skipuleggja þarf sérstök námskeið í samskiptum og samningatækni fyrir þá, sem taka þátt í samningaviðræðum í Karphúsinu. Slípa þarf menn, til að þeir nái árangri.

Jónas Kristjánsson

DV