Ólíkt hafast menn að. Meðan fjöldinn skemmtir sér á heimsleikum íslenzka hestsins eða tekur annan þátt í fögnuði þeirra, sem vel gengur undir miklu álagi eftir mikla vinnu, sitja öfundin og illgirnin atvinnulaus heima við tölvuna og spúa galli á vefinn.
Slúðrið á hestavefnum 847 er fróðleg innsýn í hugarheim sumra þeirra, sem ekkert hafa eða geta gert sér til ágætis og fá útrás við að reyna að sverta þá, sem leggja hart að sér við að ná árangri og skara fram úr á ýmsum sviðum hestamennskunnar.
Níðið um Berglindi og Bassa á 847 er nýjasta dæmið úr langri óheillasögu slúðurdálksins, sem nær yfir ásakanir um innbrot og þjófnaði og annað saknæmt athæfi. Í öllum tilvikum eru nafnleysingjar að ráðast á nafngreint fólk eða fólk, sem auðþekkjanlegt er af lýsingunni.
Öfund og illgirni eru engan veginn aðalefni slúðursins. Þar fer meira fyrir meinlausu blaðri, þar sem fáfróðir velta drýgindalega vöngum yfir því, sem hægt er að fletta upp í heimildum. En gallið flýtur með blaðrinu, af því að dálkinum er ekki ritstýrt.
Samkvæmt fjölmiðlalögum og dómvenju ber ritstjóri/framkvæmdastjóri/eigandi fjölmiðils ábyrgð á nafnlausu slúðri eins og hann hafi samið það sjálfur. Þess vegna er nafnlaust slúður í dagblöðum ritskoðað og yfirleitt aðeins birt, ef það er annað hvort hlutlaust eða jákvætt.
Daníel Ben Þorgeirsson ber persónulega ábyrgð á öllu nafnlausu níði á 847. Ef landsliðsnefndin eða tamningamannafélagið fyrir hönd Berglindar eða landssambandið fyrir hönd annarra hestamanna, sem hafa verið svertir á 847, telja við hæfi að kosta málshöfðun samkvæmt lögum um fjölmæli, er Daníel Ben í vondum málum.
Fólk hefur sterka réttarstöðu gegn nafnlausu slúðri. Um leið og landslög styðja málfrelsi með því að veita mönnum rétt til óvæginnar gagnrýni undir eigin nafni, vernda þau þá, sem sæta öfund og illgirni nafnlausra fjölmiðlunga.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 7.tbl. 2003