Áður en við förum að tárast út af góðmennsku auðríkjanna að gefa eftir skuldir nokkurra fátækra þróunarríkja, skulum við líta bæði á smáa letrið og fortíðina. Í smáa letrinu eru sett ýmis skilyrði, þar á meðal er krafizt undirgefni við hagfræðireglur, sem hafa sett mörg þróunarríki á höfuðið.
Í fortíðinni eru svik auðríkjanna og sjóða þeirra við þróunarríki. Þessi svik felast í, að Alþjóðabankinn, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og auðríkin hafa óspart lánað ríkjum, þar sem stelsjúkir harðstjórar hafa hirt lánin og ætlazt síðan til, að þrælar þeirra borgi afborganir og vexti.
Í öllum tilvikum hafa Alþjóðabankinn, gjaldeyrissjóðurinn og auðríkin vitað, að peningarnir hafa farið forgörðum og að ekki eru nein efni til að innheimta þá hjá fátæku fólki, sem aldrei hafa séð þá. Þessar illræmdu stofnanir Vesturlanda geta bara snúið sér til svissneskra banka með kröfur sínar.
Staðreyndin er sú, að fátæku þjóðirnar fengu aldrei þessa peninga og eiga því ekki að borga þá til baka. Það er ekki góðmennska að viðurkenna þetta, heldur aðferð til að dreifa athyglinni frá þörfinni fyrir þróunaraðstoð til fátækra ríkja. En slíkt kemur ekki til greina að mati Bandaríkjanna.
Athyglisvert er, að eftirgjöfin er háð kröfu um afnám spillingar. Það er í fyrsta skipti, sem Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa sýnt áhyggjur af spillingu í þriðja heiminum. Ekki hafa auðríkin átta samþykkt sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu í þriðja heiminum.
Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa lagt sig fram um að lána spilltum harðstjórum. Þeir hafa ausið fé í glæpamennina Paul Kagame í Rúanda og Joveri Museveni í Úganda, af því að þeir virða hagfræðireglur frjálshyggju og hafa þannig stuðlað að hruni ríkja um alla Mið-Afríku.
Krafa frjálshyggjunnar hefur verið einkavæðing opinberra fyrirtækja, skefjalaus náttúruspjöll í þágu hnattvæddra fyrirtækja og þrælkun íbúanna við færibönd á nánast engu kaupi. Krafizt er, að fátækir greiði fyrir sjúkrakostnað og menntun. Krafizt er, að græðgi leysi samhjálp af hólmi.
Ef fátæklingarnir tregðast við að fara eftir smáa letrinu í geðveikiskröfum frjálshyggjunnar, fá þeir ekki gefna eftir blóðpeninga Alþjóðabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
DV