Smáir og knáir

Greinar

Við getum lært margt af smáríkjum Evrópu, sem hafa komið sér vel fyrir, þótt þau séu á landamærum öflugra ríkja, er hafa sum hver myndað voldugt Evrópubandalag. Á okkar tíma og þróunarstigi virðist evrópskum smáríkjum vegna nokkru betur en stóru ríkjunum.

Ekki er langt síðan smæðin sjálf var smáríkjum fjötur um fót. Hún dró úr aðgangi að fjölmennum markaði og var hemill á verksmiðjuiðnað, sem var undirstaða evrópskra auðþjóða, áður en hann fluttist til Austur-Asíu og þekkingariðnaður tók við í gamla heiminum.

Núna er engin framtíð í stórum verksmiðjum í Evrópu og allra sízt þeim, sem eru vinnuaflsfrekar. Evrópumenn eru orðnir svo vanir háum tekjum, að handavinna á borð við skipasmíði á heima í Kóreu og vélmennavinna á borð við bílasmíði á heima í Japan.

Sjálfstæðið er sá kostur smáríkja, sem gerir meira en að vega upp smæðina. Smáríki hafa sitt eigið miðsóknarafl, sem beinist ekki til Lundúna, Parísar eða Rómu, heldur til eigin höfuðborgar. Þetta hefur margvísleg áhrif, allt frá sálrænum yfir í fjárhagsleg.

Sameiginlegt með mörgum hinna hagkvæmu eiginleika smáríkja er kunnáttan við að nota sérstöðuna. Færeyingar kunna mun betur en við að nota sér útgáfu frímerkja til ávinnings og hinir sterkríku Sanmarínar eru hátt yfir okkur hafnir á því sviði.

Ferðaþjónusta er skyld frímerkjaútgáfu. Alveg eins og sumir frímerkjasafnarar verða að eignast frímerki frá San Marinó verða sumir ferðasafnarar að geta státað af að hafa komið þangað. Menn flykkjast þangað, en ekki til næstu borgar, sem kann að vera mun fegurri.

Fjármálaþjónusta er gróðavænlegasta iðjan í smáríkjum. Þar hefur Sviss riðið á vaðið og í kjölfarið fylgt Lichtenstein og Luxemburg. Smáríki geta leyft sér sveigjanleika og svigrúm í bankarekstri, sem erfiðara er hjá stóru ríkjunum, reyrðum í þungar ríkisreglur.

Oft hefur verið bent á, að Íslendingar eigi góða möguleika á að byggja upp bankafríhöfn, sem geti tekið við útlendum peningum og skilað þeim, án þess að peningaveltan sé fryst að hluta, skattlögð, vaxtaheft eða þvinguð á annan hátt af hálfu hins opinbera Stóra bróður.

Hugsanlegt er, að lega landsins milli Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku geti orðið grundvöllur umskipunar varnings frá Austur-Asíu og sjálfvirkrar samsetningar tæknibúnaðar frá sama heimshluta. Opnun norðausturleiðarinnar yfir Íshafið mundi stuðla að því.

Við þurfum einnig að taka frumkvæði í afstöðu okkar til efnahagsbandalaga á borð við Evrópubandalagið, sem sogar til sín rúmlega helminginn af útflutningi okkar. Við þurfum annaðhvort að stefna að þátttöku eða fara hina leiðina og efla sérstöðu okkar úti á Atlantshafi.

Ef við viljum hagnýta okkur til fulls möguleika okkar sem íbúa smáríkis úti í hafi, er eðlilegt, að við eflum frekar sérstöðuna og reynum jafnframt með viðskiptasamningum að milda tollmúra Evrópubandalagsins, svo sem raunar hefur verið stefna okkar hingað til.

Til þess að það megi takast, verðum við að draga úr einstefnunni í útflutningi og leggja meiri áherzlu á að afla afurðum okkar markaða í Japan og nágrannaríkjum þess í Austur-Asíu, um leið og við reynum að hamla gegn frekari samdrætti viðskipta við Norður-Ameríku.

Í ráðagerðum af þessu tagi er hagkvæmt að læra af auðugum smáríkjum, er hafa áður farið ýmsar þær leiðir, sem okkur standa til boða um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

DV