Smákóngur gabbar þingmenn.

Greinar

Mörg dæmi sýna, að stjórnmálamenn þjóðarinnar á Alþingi eiga erfitt með að standast snúning embættismönnum, sem búa til lagafrumvörp fyrir þá. Slík frumvörp fela oft í sér aukin völd hinna sömu embættismanna og stofnana, sem þeir veita forstöðu.

Sem dæmi um ástandið má nefna meðferð allsherjarnefndar efri deildar Alþingis á frumvarpi, sem nokkrir embættismenn sömdu fyrir dómsmálaráðherra. Felur frumvarpið í sér, að opinberar stofnanir þurfi ekki lengur að birta gjaldskrár sínar opinberlega.

Allsherjarnefndin leitaði álits Sambands íslenzkra sveitarfélaga, Sambands íslenzkra rafveitna og Hafnarsambands sveitarfélaga, sem allt eru opinherir aðilar, er vilja hafa lög sem þægilegust fyrir sig. Enda mælti allsherjarnefnd með samþykkt frumvarpsins. Einum rómi!

Þessari nefnd Alþingis datt ekki í hug að leita álits á hinum vængnum, hjá viðskiptavinum þessara stofnana. Til dæmis var ekki beðið um álit Neytendasamtakanna, þótt sumar opinberar stofnanir séu þekktar að fyrirlitningu á rétti neytenda gagnvart þeim.

Sem dæmi um þessa fyrirlitningu má nefna, að Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hitaveita Reykjavíkur eru hættar að sýna einingaverð á áætlunarreikningum þeim, sem þær senda notendum. Þeir dólgslegu reikningar stinga mjög í stúf við hliðstæða bandaríska reikninga, sem við höfum birt hér í blaðinu.

Formaður Neytendasamtakanna, sem er nýkominn úr kynnisferð um Bretland, skýrði frá því hér í blaðinu í fyrradag, að þar í landi væri síminn neytendum þyngstur í skauti allra opinberra stofnana. Teljaraskref og annar ófögnuður benda til, að svo sé einnig hér á landi.

Embættismenn símans hafa greinilega haft tögl og hagldir í nefnd, sem bjó til fjarskiptafrumvarp, er samgönguráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi. Frumvarpið grunnmúrar einokun símans á fjarskiptum utanhúss og gerir meðal annars öll kapalkerfi ólögleg.

Til þess að villa um fyrir stjórnmálamönnum frumvarpsnefndarinnar og Alþingis segir í greinargerð frumvarpsins, að það taki ekki afstöðu til kapalkerfa, enda séu á döfinni breytingar á útvarpslögum, sem kunni síðan að leiða til breytinga á fjarskiptalögum.

Sama grandaleysi kom fram í ræðu samgönguráðherra um frumvarpið. Hann benti þar á kapalkerfin, sem tekin hafa verið í notkun víða um land, og hélt því fram, að fjarskiptafrumvarpið gengi í sömu frjálsræðisátt og útvarpslagafrumvarpið, sem sefur á Alþingi.

Gallinn er sá, að það eru frumvörp, sem verða að lögum, en ekki góðviljaðar greinargerðir eða framsöguræður, sem fylgja þeim. Og í nýja fjarskiptafrumvarpinu er hreinlega felld niður heimild, sem ráðherra hefur nú til að veita öðrum en Pósti og síma leyfi til fjarskipta.

Sigfús Björnsson prófessor sagði nýlega í útvarpserindi, að frumvarpið gerði einkarétt símans á fjarskiptakerfum og þar á meðal kapalkerfum ótvíræðari en nokkru sinni fyrr. Lokað yrði smugunni, sem opnast hefði við nýju útvarpslögin og óskerta ráðherraheimild.

Jón Skúlason símamálastjóri hefur sem sagt gabbað stjórnmálamennina. Hefði þó mátt ætla, að þeir hefðu nokkra reynslu af einræðishneigð smákónga í stétt embættismanna og kynnu að vara sig á henni. Frumvörpin um gjaldskrár stofnana og fjarskipti benda til, að svo sé ekki.

Jónas Kristjánsson.

DV