Smáþjóðir vísa okkur veginn.

Greinar

Luxemborgarar settu í ár lög, sem eiga að gera landið að hliðstæðum griðastað erlendra tryggingafélaga og það hefur verið fyrir banka. Meðal annars eru í lögunum afskriftareglur, sem fela í sér freistandi skattfríðindi. Þannig soga þeir erlend fyrirtæki inn í landið.

Árið 1981 hertu Luxemborgarar bankalög sín, svo að þau eru enn strangari en í Sviss. Liggja nú harðar refsingar við brotum á trúnaði bankamanna við sparifjáreigendur, jafnvel þótt hinir síðarnefndu séu grunaðir um skattgreiðslutregðu í heimalöndum sínum.

Í bankalögum Luxemborgara eru líka ákvæði um skattfrelsi erlendra innstæðna. Með bankaleyndinni og skattfrelsinu hefur þeim tekizt að fá stofnuð í landinu útibú erlendra banka og erlent fjármagn á reikninga í þessum bönkum. Hið sama hyggjast þeir nú gera í tryggingum.

Dæmi Luxemborgara sýnir, að smáþjóðir geta haft drjúgar tekjur af starfsemi, sem stórþjóðir ráða af ýmsum ástæðum síður við. Þeir hafa fetað í fótspor annarrar smáþjóðar, Svisslendinga, sem hafa öldum saman verið eitt öflugasta fjármálavirki heimsins.

Slíka hluti er einnig hægt að gera hér á landi, þótt auðvitað muni taka langan tíma að byggja þá upp. Jón Sólnes, fyrrum alþingismaður, stakk á sínum tíma upp á, að Ísland yrði gert að eins konar fríhöfn fyrir erlenda peninga. Framsýni hans fékk lítinn hljómgrunn.

Erfiðast í þessum efnum er að vinna traust sparifjáreigenda í útlöndum. Það hefur Luxemborgurum tekizt. Bankaleynd þeirra hefur ekki verið rofin. Hér er hins vegar alltaf hætta á, að öfundsjúkir alþýðubandalagsmenn spilli sniðugum lögum, þegar þeir komast til valda.

Fleira geta smáþjóðir gert en að búa til fríhöfn handa erlendum peningum. Þær geta til dæmis komið á fót fríhöfn fyrir erlendar vörur og erlendan iðnað, eins og Írar hafa gert með góðum árangri. Hér á landi hafa komið upp hugmyndir um að gera Keflavíkursvæðið að slíkri fríhöfn.

Tollvörugeymslur og ýmis léttur iðnaður á fríhafnarsvæði við flugvöllinn í Keflavík og landshöfnina í Njarðvík yrði án efa lyftistöng íslenzkum fjárhag og efnahagsmálum. En því miður ríkir hér áhugaleysi á hægri kanti og tortryggni og fjandsemi á vinstri kanti.

Ekki má gleyma frímerkjunum, þegar rætt er um lífsbaráttu smáþjóða. San Marino og Monaco eru dæmi um ríki, sem hafa drjúgar tekjur af útsjónarsemi í útgáfu frímerkja. Hér á landi hafa menn aldrei haft vit á að kynna sér frímerkjastefnu þessara ríkja og læra af henni.

Liechtenstein er smáríki, sem hefur miklar tekjur af skattfríðindum fyrirtækja. Þótt allur rekstur þeirra sé í öðrum löndum, sækjast þau eftir því að koma höfuðstöðvum sínum fyrir í Liechtenstein eða að minnsta kosti svo sem einum póstkassa. Allt gefur þetta tekjur.

Í upphafi þessa leiðara var fjallað um lagni Luxemborgara í alþjóðlegum fjármálum. Ekki má heldur gleyma, að þeir eru orðnir stórveldi í fjölmiðlun. Útvarps- og sjónvarpsstöðin Radio Luxembourg er hin vinsælasta í allri Evrópu og rakar saman tekjum af auglýsingum.

Þegar fiskinum sleppir, höldum við hins vegar, að lífið sé refur og lax, lífefni og rafeindir. En það er svo ótalmargt fleira hægt að gera til að breyta láglaunaþjóð í auðþjóð. Við þurfum ekki annað en að læra af öðrum smáþjóðum, sem lifa góðu lífi af margvíslegri útsjónarsemi.

Jónas Kristjánsson.

DV