Smiðjan

Veitingar

Akureyrarstaður númer tvö

Smiðjan er ósköp notaleg, 50 sæta veitingastofa í ánægjulega gömlu húsi, sem brakar í og sagt er hafa verið smiðja. Lágt er undir hvítt loftið milli dökkbrúnna bita, þar sem hanga luktir úr látúni og gleri.

Sumt hefur tekizt í innréttingu, svo sem dökkbrúnn viður á veggjum og viðarklæddar súlur, dökkrautt teppi á gólfi og plussklæddir bekkir, hringstigi upp á loft og eins konar koparstunga af heimskorti, falleg og vel lýst.

Annað er mislukkað, einkum kassar á veggjum með plasti og límböndum til stælingar á blýlögðu gleri, gervieldur í arni, gerviblóm á borðum og dansgólfið úr Vaglaskógarbútum. Og vín má ekki geyma upp við ofn.

Ég hef ekki áður skrifað um Smiðjuna, af því að fyrst var hún aðeins opin með höppum og glöppum. Nú er hún opin öll kvöld og einnig í hádeginu frá föstudegi til sunnudags. Hún hefur breytzt úr lokuðum sal í opið hús.

Þetta er ánægjuleg þróun, því að Smiðjan býður að mörgu leyti upp á prýðilegan mat og engan minna en frambærilegan. Með henni hafa Akureyringar fengið annan góðan veitingasal til viðbótar við aðra hæð hótels KEA.

Blóðugur og bragðgóður turnbauti

Fyrst skal frægan telja frábæran turnbauta, sem ég fékk síðast í Smiðjunni, blóðugan, undurmeyran og bragðgóðan. Hann var borinn fram með sérlega mildri og góðri béarnaise-sósu og annarri sósu enn betri úr kjötsafanum, rjóma, brandí , sveppum og papriku.

Grillsteiktar hamborgarkótilettur voru vel reyktar og góðar, en því miður bornar fram með margvíslegu, soðnu dósagrænmeti og brúnni sveppa-hveitisósu. Venjulega grísakjötið var enn betra, raunar óvenjulega gott, hæfilega steikt, en með sama meðlætinu og sömu sósunni.

Lambakótilettur voru rauðar, meyrar og góðar, en undir álögum margnefndrar sveppa-hveitisósu, sem í þessu tilviki hafði þó verið bætt með rjóma. Sama sósan fylgdi einnig góðum kjúklingi, sem var í þurrara lagi. Frönsku kartöflurnar, sem fylgdu, voru bæði of linar og of dökkar.

Í fyrrasumar fékk ég nýjan lax í Smiðjunni, matreiddan á hefðbundinn hátt, borinn fram með bráðnu smjöri, soðnum kartöflum, sítrónum og sýrðum gúrkum. Þetta var mjög góður matur.

Barnamatur Smiðjunnar hefur reynzt vel. Hamborgari var góður, borinn fram með sómasamlegri kokkteilsósu. Enn betri var pitsa, þunn, heit og snörp. Ísinn er ágætur í Smiðjunni, svo framarlega sem hann er ekki borinn fram með dósaávöxtum.

Hrásalatið, sem fylgir öllum aðalréttum Smiðjunnar, hefur yfirleitt verið vel gert, rétt aðeins snarpt undir tönn og bezt, þegar sítrónusafi hefur verið notaður í stað þúsund eyja sósu.

Góð Smiðjuglóð úr freyðivíni

Svokallað Smiðjukaffi, blandað kahlua, brandí og þeyttum rjóma, verður seint heimsfræg grein á þeim meiði. Betri er Smiðjuglóð úr freyðivíni og martini bitter, hressandi fordrykkur.

Vínlistinn er fremur ómerkilegur í hvítvínum, en af rauðvínum má fá Chateauneuf-du-Pape, Chianti Classico og Chateau de Saint Laurent.

Réttir dagsins eru seldir á nokkurn veginn sama verði og réttir af fastaseðli, svo að gestum er enginn sparnaður í dagsseðlinum. Meðalverð forrétta var 55 krónur, súpa 19 krónur, fiskrétta 65 krónur, kjötrétta 114 krónur og sæturétta 23 krónur.

Einn réttur með súpu á seðli dagsins kostaði að meðaltali 147 krónur og þríréttaður matur af fastaseðli með víni og kaffi kostaði að meðaltali 187 krónur. Smiðjan slagar því að verði hátt upp í dýru Reykjavíkurhúsin.

Matareinkunn Smiðjunnar er sjö, vínlistaeinkunn sex, þjónustueinkunn sjö og umhverfiseinkunn sjö. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnir með tveimur, koma út 69 stig af 100 mögulegum. Það gera sjö í einkunn.

Jónas Kristjánsson

Vikan