Smiðjan

Veitingar

Smiðjan á Akureyri hefur lítillega batnað á þessu ári og tekið við af Hótel Kea sem bezta veitingahús staðarins. Matreiðslan hefur að vísu staðið í stað í meðalmennskunni, en ýmis önnur atriði hafa hjálpazt að við að lyfta Smiðjunni, einmitt þegar til skjalanna er komin samkeppni frá fjórum nýjum matstofum þar í bæ.

Fiskur í steikhúsi

Nýr fastaseðill er kominn til sögunnar og lýsir því yfir, að staðurinn sé ekki lengur eingöngu steikarhús, heldur alhliða veitingasalur. Tvær af súpunum eru sjávarréttasúpur og einn kafli seðilsins fjallar um fisk. Viðurkenning á þessari göfugu fæðu er mikilvægur áfangi í þróunarbraut hvers veitingahúss.

Ennfremur er í hádeginu á boðstólum átta aðalrétta langur seðill dagsins, sem leggur mesta áherzlu á fisk. Þetta er hverju sinni sami dagseðill og uppi í Bauta, en verðið er nokkru hærra, svo sem eðlilegt er. Það er hins vegar mun lægra en á fastaseðlinum. Þetta tilboð er mun hagkvæmara en hjá hinum fínu stöðunum á Akureyri.

Ég skoðaði nokkra þessara dagseðla og sá ýmislegt forvitnilegt, svo sem hrátt hangikjöt með melónu, hreindýrabuff með rifsberjahlaupi, kinnar pönnusteiktar í pernod, gufusoðinn lax, rjómasoðnar gellur og banana bakaðan í kaffilíkjör. Í rauninni er dagseðillinn meira spennandi en fastaseðillinn.

Athyglisvert er, hversu margir réttir hins síðarnefnda eru hinir sömu og í veitingasal Hótel Kea, hinum megin götunnar. Það eru þessir hefðbundnu réttir íslenzkra veitingahúsa, svo sem ofnbakaðir sniglar, blandaðir síldarréttir, djúpsteiktar rækjur, frönsk lauksúpa, piparsteik, turnbauti og djúpsteiktur camembert. Það er víst þetta, sem Íslendingar vilja éta.

Vínkjallari Smiðjunnar hefur batnað, einkum í rauðvínum. Þar fékkst til dæmis Chateau de Saint Laurent, Chateau Barthez de Luze og Marqués de Riscal. Síðast þegar ég vissi, var samt gamla vínkortið enn í notkun. Hið nýja ætti að vera komið, þegar þetta birtist.

Flest annað var í sömu skorðum í Smiðjunni. Peningakassinn var hávær sem fyrr. Ekta vínglös höfðu enn ekki birzt á borðum. Vínið var sumpart geymt í hlýjum matsalnum. Innréttingin er óbreytt, þar á meðal básarnir, sem gera virðulega þjónustu afar erfiða, þótt þjónar reyni að teygja sig sem mest þeir mega.

Hlýlegt stílmoð

Innréttingin er orðin að Akillesarhæl Smiðjunnar, síðan opnaðir voru nokkrir nýir veitingastaðir með smekklegum búnaði. Í samanburði við þá er Smiðjan hálfgerð smekkleysa eða stílmoð. Hún er samt einna hlýlegasti salurinn og dregur greinileg að sér flesta viðskiptavinina.

Ef Mánasalur eða Laxdalshús eða Laut eða Kjallarinn kæmu sér upp góðri matreiðslu, mundi sá staður bera af Smiðjunni. Hún nýtur þess, að nýju matstofunum hefur láðst að hugsa nógu vel um matreiðsluna. Hin átakalausa meðalmennska í matreiðsla Smiðjunnar stendur enn upp úr á Akureyri, þótt undarlegt megi virðast.

Rjómalöguð rækjusúpa með kavíarbrauði var góð, betur rjómuð og skemur elduð en uppi í Bauta. Rækjurnar voru ekki orðnar þurrar. Grásleppuhrognin í brauðinu voru svo fá, að þau gáfu ekki bragð. Ostbakaður hörpufiskur var meyr og góður, en osturinn nokkuð mikill.

Nauta- og grísabautar saman á diski voru ágætir, bornir fram með skemmtilega sterkri lifrarkæfu, kallaðri gæsalifur, grilluðum humar, óvenjulega kryddaðri kartöflustöppu, svo og ýmsu öðru ómerkilegra meðlæti.

Koníakssteiktar lambalundir voru léttsteiktar, en bragðlitlar, bornar fram með hlutlausri hveitisósu og lélegu gumsi í tartalettu. Gratineruð hvítlauks-nautasneið var líka léttsteikt, en bragðdauf. Að þessu sinni var sósan þunn og góð.

Hreindýrabuff með villidýrasósu og rifsberjahlaupi var miðlungi mikið steikt, meyrt kjöt með góðu villibráðarbragði. Sósan var þunn og góð. Perurnar voru úr dós. Allir ofangreindir réttir voru af dagseðlinum.

Hrásalatið í Smiðjunni var sæmilegt.

Skemmtilegir eftirréttir

Fylltur banani með jarðarberjum var gott dæmi um áherzlu á Smiðjunnar á skemmtilega eftirrétti. Samt voru jarðarberin úr dós. Enn betri var þó bakaði bananinn í kaffilíkjör, sem var á gamla fastaseðlinum og er enn á hinum nýja.

Ísfylltur súkkulaðibolli með Grand Marnier var á gamla seðlinum, góður og þræláfengur, en er því miður ekki á hinum nýja. Kaffi var mjög gott, með þykkum rjóma og konfekti.

Þjónusta í Smiðjunni var góð eins og hún hefur jafnan verið. En hún var ekki bezt í bænum, því að Mánasalur reyndist hafa vinninginn í sumar.

Þriggja rétta máltíð með kaffi og hálfri flösku af frambærilegu víni kostaði 1.425 krónur að meðaltali af fastaseðli, 940 krónur af hádegisseðli og 1.235 krónur af blönduðu vali fastaseðils og kvöld- og helgarseðils. Í heild má segja, að verðlag Smiðjunnar sé hið sama og Hótel Kea, Mánasalar og Laxdalshúss, heldur hærra en Lautar og Kjallara. Það er hádegisseðillinn, sem gefur Smiðjunni vinninginn.

Gaman væri, ef Smiðjan mætti hinni nýju samkeppni í fleiru en smáatriðum, yrði til dæmis fyrst til að rífa syfjuna úr akureyrskri matreiðslu, svo að raunverulega yrði gaman að fara þar út að borða. Í sumar bauð enginn staðurinn upp á slíkt. Það er hart fyrir Smiðjuna að vera bezt út á svo sem ekki neitt.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður hádegisseðill:
105 Rjómalöguð hvítkálssúpa
370 Pönnusteiktar kinnar í pernod
390 Pönnusteiktur Höfðavatnssilungur
370 Djúpsteiktur gullax með súrsætri sósu
390 Grillsteikt stórlúða með sjávarréttadýfu
495 Gufusoðinn lax með bræddu smjöri
380 Rjómasoðin ýsa með papriku
360 Kínverskar pönnukökur með súrsætri sósu
420 Gratineraðar grísasneiðar með rauðvínssósu
510 Lambapiparsteik með bakaðri kartöflu
(Súpa og salatbar fylgir öllum aðalréttum)

Dæmigerður kvöld- og helgarseðill:
150 Rjómalöguð humarsúpa með koníaki
230 Hrátt hangikjöt með melónu og sinnepssósu
240 Gljáðar sjávarréttapönnukökur
430 Pönnusteiktur Höfðavatnssilungur með eggjasósu
770 Gratineruð hvítlauks-nautasteik með bakaðri kartöflu
785 Hreindýrabuff með villidýrasósu og rifsberjahlaupi
165 Fylltur banani með jarðarberjum og banana

Fastaseðill
190 Skelfisksúpa bætt með koníaki
180 Fiskiseyði með sjávardýrum og grænmeti
160 Frönsk lauksúpa
160 Rjómalöguð kjörsveppasúpa
270 Léttreyktur silungur með dillrjóma og ristuðu brauði
310 Sniglaragú framreitt í skel með ristuðu brauði
270 Kavíardúett með lauk og eggjarauðu
290 Hvitlauksristaðar rækjur með ristuðu brauði
460 Pönnusteiktur Höfðavatnssilungur með eggjasósu
980 Glóðaðir humarhalar með hvítlaukssmjöri
480 Grillsteikt lúða með púrrulauk og vínberjum
560 Sjávarréttagratín að hætti Smiðjunnar
630 Koníakssteiktar lambalundir
710 Gráðostfylltar grísalundir með Madeira-sósu
850 Logandi piparsteik með mildri piparsósu
880 Stórbauti að hætti vínkaupmannsins
850 Plankasteik Café de Paris
910 Pekingönd með rauðberjasósu
230 Bakaður banani í kaffilíkjör með vanilluís
190 Heit eplakaka með þeyttum rjóma
260 Djúpsteiktur camembert með rifsberjamauki
230 Ísskál Smiðjunnar

DV