Smiðjan

Veitingar

Smiðjan hefur árum saman kúrt af gömlum vana í hundrað ára gömlum kjallara hins vinsæla og ágæta Bauta við hornið á móti Kea og nýtur samflotsins. Fáir koma til að njóta snyrtilegs og hefðbundins veitingarýmis, menntaðrar þjónustu og matreiðslu, sem alltaf er eins, mildilega gamaldags og notaleg.

Smiðjan hefur árum og sennilega áratugum saman verið eini staðurinn á Akureyri, þar sem ég þori að borða fisk. Síðast var fiskur dagsins hæfilega lítið steiktur og ríflega pipraður steinbítur með fullmikið elduðu grænmeti og góðum kartöflum hvítum, fínn matur.

Því meira sem við Smiðjan eldumst, þeim mun notalegra finnst mér að koma þangað. Síðan innréttingunni var breytt fyrir tæpum áratug og sett upp glerlist í stað eins konar glugga, sem engir voru fyrir, hefur umhverfið verið notalegt og ekki kjallaralegt, magnað af meltingarbætandi klassík á lágum nótum.

Básar eru á annan veg og laus borð á hinn, með bleikum dúkum og þurrkum. Enginn þreytubragur er á neinum búnaði. Stólar eru þægilegir og matseðillinn eins illa prófarkalesinn og hann hefur alltaf verið. Sennilega er þetta einhver elzti matseðill í daglegu brúki hér á landi og ætti að fara á náttúruminjaskrá.

Verðlagið er mitt á milli Fiðlarans og Játvarðs. Í Smiðjunni kostar 3.830 krónur þríréttað með kaffi, í Fiðlaranum 4.450 krónur og í Játvarði, bezta staðnum, aðeins 3.150 krónur. Kannski er það gallinn við Smiðjuna, að hún er dæmigerður miðlungur, ekki afgerandi í neinu, hvorki dýr né ódýr.

Kryddlegin rjúpnabringa í rifsberja-ediksolíu var bragðgóð, fagurlega upp sett á disk með fallegu og fersku salati og smásöxuðu grænmeti, fyrsta flokks réttur. Humar var ljúflega meyr, borinn fram með áberandi hvítlauks- og engiferkryddaðri rjómasósu og grænmeti.

Fyrir aðalrétti var boðið hrásalat með eggjasósu. Mikið blóðbergskryddaður og ofnsteiktur lambahryggvöðvi var grár, en samt ekki orðinn seigur, borinn fram með leiðinlega uppbakaðri títuberjasósu og óvenjulega hóflega elduðum kartöflusneiðum í ostasósu.

Skyrterta var létt með bláberjahlaupi að ofan, borin fram með marsala-rauðvínssósu, svonefndu zabaglione, hér kallað sabajon upp á frönsku. Ferskir ávextir líkjörsristaðir Grand Marnier voru volgir og góðir, bornir fram með fremur góðum vanilluís. Kaffi var notalegt, við staðarhæfi.

Jónas Kristjánsson

DV