Smjörvatnsheiði

Frá Fossvöllum í Jökulsárhlíð að Sunnudal í Vopnafirði.

Leiðin er að mestu leyti vörðuð.

Þekktasti og lengi mest notaði fjallvegurinn milli Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðar. Hann er töluvert langur, tvær þingmannaleiðir. Um hann var lögð vísa í Beinavörðu: “En sá heiðarandskoti / ekki strá né kvikindi, / en hundrað milljón helvíti / af hnullungum og stórgrýti.” Í sóknarlýsingu segir: “Vegurinn er grýttur og allillur yfirferðar, sæmilega varðaður.” Um 20 km af leiðinni eru ofar 600 metrunum. Á Fossvöllum bjó landnámsmaðurinn Þorsteinn torfi. Bærinn er rétt hjá brúnni á Jökulsá á Dal. Á Fossvöllum voru manntalsþing og alþingiskosningar. Á Hrafnabjörgum hafa fundizt leifar af hofi og blóthringur.

Förum frá Fossvöllum vestur á fjallið sunnan við Laxá milli Hrafnabjarga að norðan og Keldudalshæðar á sunnan. Síðan áfram vestur að Fossá, yfir hana og með henni að austanverðu upp Biskupsbrekku að Kaldárhöfða. Þar byrja vörðurnar. Síðan sunnan við höfðann og norðan við Laxárdalshnjúk til vesturs að Fjórðungsvörðu í 710 metra hæð. Nokkru vestar komum við að Beinavörðu og síðan að sæluhúsi á Vöðlum á Smjörvatnsheiði. Þar eru Smjörvötn framundan og við sveigjum til norðurs fyrir austan vötnin. Förum síðan norður og niður Þrívörðuháls, Langahrygg og Tungufell. Og loks um Kisulág að Guðmundarstöðum eða Sunnudal.

35,6 km
Austfirðir

Skálar:
Smjörvatnsheiði: N65 30.096 W14 52.725.
Vaðlabúð: N65 30.288 W14 53.224.

Nálægar leiðir: Hofteigsalda, Sauðahryggur, Lambadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort