Snaróðir Serbar

Greinar

Serbar haga sér verr í Bosníu en Þjóðverjar og Japanir gerðu í hernumdu löndunum í síðari heimsstyrjöldinni. Í skjóli Serbíuhers hreinsa þeir þúsundir bæja og þorpa með því að reka íbúa þeirra á brott, samtals hálfa aðra milljón manns á mjög skömmum tíma.

Þúsundum saman haga Serbar sér eins og brjálæðingar. Þeir setja upp fangabúðir, þar sem óbreyttum borgurum er hrúgað saman og látnir svelta heilu hungri, meðan drukknir varðmenn skemmta sér við að skjóta þá. Þarna er ekki Slobodan Milosevic einn að verki.

Hjá Serbum sameinast þrennt; sagnfræðileg sálarkreppa; meira eða minna stjórnlaus hernaðarforusta og kommúnismi í stjórnarfari. Niðurstaðan er þjóðarbrjálæði, sem ekki lagast, þótt hrakinn verði frá völdum hinn versti meðal jafningja, Slobodan Milosevic.

Prófessorar og menntaðir menn eru meðal annarra í forustu fyrir þessu villidýraliði, sem fer eins og logi yfir akur og eirir engu, hvorki börnum né heimssögulegum listaverkum. Serbar eru sem þjóð og einstaklingar hinn stóri svarti blettur á Evrópu nútímans.

Á sama hátt og Ísraelsmenn virðast Serbar telja, að hremmingar, sem forfeður þeirra urðu fyrir hálfri öld, afsaki á einhvern hátt grimmdar- og fólskuverk þeirra í nútímanum. Þetta sagnfræðilega brjálæði heldur þó Serbum í mun harðari helgreipum en Ísraelsmönnum.

Vesturlöndum ber að beita Serba miklu harðari tökum, þótt ekki sé ráðlegt að fara í stríð á landi við óða menn. En þau geta tekið öll ráð í lofti og á sjó með flugherjum sínum og flotum án þess að leggja sína menn í mikla lífshættu. Einangra þarf Serba algerlega.

Með öflugum aðgerðum í lofti og á sjó, svo og traustu eftirliti á landamærum Serbíu er unnt að koma í veg fyrir, að þeir fái olíu og aðrar nauðsynjar til óhæfuverka sinna. Setja þarf algert og óhikað bann á alla vöruflutninga til og frá Serbíu og hernumdu svæðunum.

Einnig kemur sterklega til greina, að nokkur vestræn ríki taki sig saman um að sprengja í loft upp hernaðarlega mikilvæga staði í Serbíu til að gefa forustumönnum brjálseminnar að smakka á eigin lyfjum. Evrópa hefur nefnilega ekki efni á, að Serbar vinni stríð sitt.

Ef Serbum tekst að hreinsa stór svæði í nágrannaríkjunum til að rýma fyrir sér, mun það hafa geigvænleg áhrif á þjóðrembinga í öðrum ríkjum, þar sem minnihlutahópar búa öfugum megin landamæra. Sérstaklega er þetta hættulegt í Samveldi sjálfstæðra ríkja.

Þar er víða hætt við, að hinir sterkari aðilar á hverjum stað fari að fordæmi Serba og hefji blóðuga útrýmingu í trausti þess, að Vesturlönd séu svo lömuð, að þau geti ekkert gert af viti í málinu. Þá er skammt í nýja vargöld á borð við síðari heimsstyrjöldina.

Vesturlönd hafa komið sér upp mörgum og dýrum stofnunum á borð við Atlantshafsbandalagið, Vestur- Evrópusambandið, Evrópusamfélagið og Öryggisráðstefnu Evrópu, sem allar eiga það sameiginlegt að umgangast vitfirringu Serba með fumi og fálmi.

Einu samtökin, sem hafa marktæk afskipti af málunum, eru Sameinuðu þjóðirnar, sem hafa fámennt gæzlulið í Sarajevo án þess að hafa ráð á því. Öryggisráð þeirra er eina stofnunin, sem reynt hefur af viti að ná samstöðu um refsiaðgerðir umheimsins gegn Serbíu.

Serbar fást ekki niður á jörðina með samningaþófi, ekki frekar en Saddam Hussein. Eina leiðin til að tjónka við þá er að beita efldum refsingum og hreinu valdi.

Jónas Kristjánsson

DV