Sneypuför til Malaví

Greinar

Utanríkisráðuneytið og ríkisstjórnin virðast ekki fylgjast með erlendum fréttum. Þótt vestræn ríki hafi í fyrra ákveðið að frysta alla þróunaraðstoð við smáríkið Malaví í Afríku, er utanríkisráðherra okkar kominn þangað af vangá til að afhenda því tvo báta að gjöf.

Malaví hefur einangrast á alþjóðavettvangi vegna óvenjulega mikilla og grófra mannréttindabrota, sem elliær einræðisherra landsins, Hastings Banda, hefur látið fremja og lætur fremja enn þann dag í dag. Ástand mála í landinu er eitt hið versta í allri Afríku.

Eftir lok kalda stríðsins hafa Vesturlönd í vaxandi mæli gert aukin mannréttindi og lýðræði að forsendu fjárhagslegs stuðnings við Afríkuríki. Reynslan hefur sýnt, að þetta er ákaflega áhrifamikil aðferð við að knýja harðstjóra Afríku til að draga úr grimmdarverkunum.

Ef einhver þróunaraðstoð hefur lekið til Malaví á síðustu mánuðum, hefur hún farið afar leynt. Engu utanríkisráðuneyti og engri ríkisstjórn í heiminum hefur dottið í hug að gera út sendinefnd til að hitta ráðamenn þessa ríkis, hvað þá, að utanríkisráðherrar séu sendir.

Verið getur, að íslenzk stjórnvöld telji sig fremur en önnur vestræn stjórnvöld knúin til að standa við loforð við hina hrottalegu stjórn í Malaví. En sé svo, er brýnt að slík framkvæmd sé ekki auglýst með þeirri viðhöfn að senda þangað sjálfan utanríkisráðherra okkar.

Lýsingar á stjórnarfari í Malaví eru því miður ekki prenthæfar. Hinn elliæri Hastings Banda sér óvini í hverju horni og lætur pynda og drepa alla, sem hann grunar um að vera sér ekki hliðholla. Opinberlega segist ríkisstjórnin fleygja andstæðingum fyrir krókódíla.

Það er til marks um ógnaröldina í Malaví, að verðandi mæður þora ekki annað en að afla ófæddra barna sinna skírteinis frá flokki forsetans til þess að koma í veg fyrir, að Hastings Banda láti vinna þeim mein. Nánar þarf ekki að lýsa stjórnarfarinu í Malaví.

Auðvitað þarf mikið að ganga á, til að stjórnendur Alþjóðabankans finni sig knúna til að kalla saman fund vestrænna ríkja, þar sem samþykkt var samhljóða að hætta í heil tvö ár, 1992 og 1993, öllum stuðningi við það helvíti, sem Hastings Banda hefur búið til í Malaví.

Bæði er það, að enginn vestrænn stjórnmálamaður, embættismaður eða bankamaður getur verið þekktur fyrir að hitta ráðamenn í Malaví, og að frysting aðstoðar hefur reynzt einhver allra bezta aðferðin við að fá slíka ráðamenn til að draga úr hermdarverkum sínum.

Mikilvægt er, að ekkert vestrænt ríki rjúfi þessa samstöðu. Þess vegna er fáránlegt, að utanríkisráðherra Íslands skuli fara einmitt til þessa volaða lands til að taka í höndina á heimsþekktum morðingjum og verðlauna þá með gjöfum frá Þróunarstofnun Íslands.

Komið hefur fram, að utanríkisráðuneytið fylgist afar illa með utanríkismálum, einkum alþjóðamálum. Mikilvægt er, að ráðuneyti, sem er svona fáfrótt um ástand mála í heiminum, taki mark á leiðbeiningum og hætti við áform, sem munu skaða stöðu Íslands í heiminum.

Árni Gunnarsson, stjórnarmaður í Þróunarstofnun Íslands, sendi utanríkisráðherra bæði skeyti og fax til að fá hann ofan af sneypuförinni til Malaví. Því miður vildi ráðherrann ekki taka mark á vinsamlegum ábendingum flokksbróður. Hann fór alla leið til Malaví.

Niðurstaðan er, að íslenzka þjóðin greiðir nokkrar milljónir í ferðakostnað, svo að utanríkisráðherra geti orðið henni til minnkunar á alþjóðlegum vettvangi.

Jónas Kristjánsson

DV