Snöggur sanngirnissigur.

Greinar

Mikil og óvænt gleðitíðindi eru bráðabirgðalögin um brottfall 10% skattsins á ferðamannagjaldeyri. Aðdragandi laganna er ánægjulegt dæmi um, að íslenzk stjórnvöld geta verið skjótvirk, ef þau telja það máli skipta.

Albert Guðmundsson fjármálaráðherra var einn helzti hvatamaður málsins í ríkisstjórninni. Eftir jákvæðar viðræður fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins lagði hann málið fyrir ríkisstjórnarfund í gær.

Þar fékk það fremur vinsamlegar undirtektir og voru þingflokkar ríkisstjórnarinnar kallaðir saman. Í báðum flokkum voru bráðabirgðalögin samþykkt síðdegis í gær. Og Albert var ekki seinn á sér að gefa lögin út í dag.

Með þessu er miklu og langvinnu leiðindamáli vikið til hliðar. Ferðamannaskatturinn hefur alltaf verið hvimleiður skattur, sem stríðir á ýmsan hátt gegn alþjóðlegu samstarfi og hefur samt ekki gefið mikið í aðra hönd.

Spáð hafði verið 75 milljón króna ríkistekjum af 10% álaginu á þessu ári. Hliðstæða upphæð þarf auðvitað að spara á móti, svo að bráðabirgðalögin leiði ekki til aukinnar skattheimtu á einhverju öðru sviði.

Ferðamannaskatturinn hefur falið í sér tvöfalda gengisskráningu, sem minnti á spillingartíma sjötta áratugarins, þegar snjallir menn syntu laglega milli margs konar gengis. Hér eftir er aðeins eitt gengi krónunnar.

Áður voru útflytjendur settir skör lægra en innflytjendur, sem gátu kostað viðskiptaferðir sínar af erlendum umboðslaunum. Þannig voru sumar viðskiptaferðir háðar ferðamannaskatti og aðrar alls ekki.

Áður var almenningur í sumarfríum settur skör lægra en embættismenn og viðskiptaaðilar, sem fá dagpeninga reiknaða í erlendri mynt. Í báðum þessum dæmum hefur misræmi milli hópa verið aflétt með bráðabirgðalögunum.

Ekki má heldur gleyma, að hinn sérstaki ferðamannaskattur okkar stríddi sem tvöfalt gengi gegn anda samstarfs okkar við aðrar þjóðir í Alþjóðlega gjaldeyrissjóðnum og var sífellt tilefni kvartana í okkar garð.

Við höfum hvað eftir annað haft gagn af þessu alþjóð lega samstarfi. Eftir brottfall 10% álagsins ætti niður að falla gagnrýni á þeim vettvangi. Það gæti komið sér vel á erfiðum tímabilum í framtíðinni.

Loks er ef til vill mikilvægast, að ferðalög eru mikilvægur þáttur lífsmáta nútímans. Fólk vill geta ferðazt um, án þess að íslenzk stjórnvöld séu sér á parti að reyna að spilla því með ranglátri skattheimtu.

Almenningur hefur margvíslegar ástæður fyrir ferðalögum sínum. Sumir vilja hvíla sig frá önnum eða rysjóttu veðri. Aðrir vilja teyga af brunnum vísinda, mennta eða sagnfræði. Allt eru þetta gildar ástæður.

Við búum svo afskekkt, að við þurfum að kaupa dýrari farseðla en aðrir til að komast yfir landamærin. Sá landfræðilegi skattur er svo mikill, að stjórnvöld eiga ekki að bæta gráu ofan á svart með viðbótarskatti.

Bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar eru spor í átt til einfaldara hagkerfis, betra alþjóðasamstarfs og réttlátara þjóðfélags. Og sérstakt fagnaðarefni er, hversu skjótt þau hafa komið til skjalanna.

Jónas Kristjánsson.

DV