Snúið út úr kvótadómi

Greinar

Ef ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis túlkar á réttan hátt kvótadóm Hæstaréttar, var óþarfi að vera jafnframt með fýlu í garð réttarins. Ef Hæstiréttur vildi efla og útvíkka einkaeign manna á þjóðarauðnum, þurftu stuðningsmenn einkaeignar ekki að kvarta og kveina.

Ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis hafa ákveðið að túlka kvótadóminn sem tæknilegan aðskilnað veiðileyfa og veiðiheimilda. Alþingi er að afgreiða frumvarp, þar sem skip og eignarhald á skipum eru eins og áður grundvöllur fiskveiða. Sægreifaveldið er eflt í sessi.

Þar sem þessir stjórnmálamenn voru áður búnir að velja Hæstarétti hin verstu orð, má fullyrða, að kvótadómurinn hafi ekki verið þeim eins hagstæður og ætla mætti af tæknibreytingum nýja lagafrumvarpsins. Þeir hafi bara ákveðið að kúga Hæstarétt til hlýðni.

Með setningu nýju laganna deyfir Alþingi fyrri ákvörðun um, að fiskimiðin séu þjóðareign. Alþingi er löggjafarvaldið í landinu og getur orðað ný lög á þann hátt, að það víki til hliðar orðalagi fyrri laga. Með nýju lögunum er skákað brott fyrra ákvæði um þjóðareign.

Hingað til hefur Hæstiréttur haft skjól af orðalagi fyrri laga um þjóðareign á fiskimiðunum. Eftir nýja túlkun meirihluta Alþingis hefur rétturinn ekki lengur sama skjól af þessu orðalagi. Hann verður hér eftir að vísa til stjórnarskrárinnar, ef hann vill halda frekara andófi.

Alþingismenn hafa fengið tækifæri til að skjótast heim í héruð yfir hátíðarnar. Þeir vita því sjálfsagt, hvað þeir geta boðið kjósendum rétt fyrir kosningar. Þeir telja greinilega, að kjósendur séu sáttir við afnám þjóðareignarinnar eins og hún birtist í nýja lagafrumvarpinu.

Samt eru sífellt að berast fréttir af flutningi kvóta milli hafna og héraða. Útgerðarfélög ganga kaupum og sölum. Hér eftir mun kvótaréttur á trillum ramba á sama hátt um landið. Fólk mun hér eftir sem hingað til vakna upp við, að frystihúsi og fiskvinnslu hefur verið lokað.

Þótt frumvarpið geri ráð fyrir, að örlítill kvóti verði tekinn frá handa sveitarfélögum, sem hafa farið illa út úr tilflutningum kvóta, breytir það ekki meginstraumi þróunarinnar, að kvóti safnast smám saman á færri hendur og flytzt úr fámennum plássum.

Sennilega hefur stuðningsmönnum sægreifakerfisins tekizt að telja kjósendum í sjávarplássum trú um, að kerfið þjóni hagsmunum þeirra, jafnvel þótt augljóst sé, að kvóti, sem bundinn er við sægreifa, flytzt með sægreifum, hvert á land sem þeir flytja reksturinn.

Einn daginn er Djúpivogur fórnardýrið, annan er það Breiðdalsvík. Einn daginn er Flateyri fórnardýrið, annan daginn er það Patreksfjörður. Smám saman skríður kvótinn til stærri byggðarlaga og endar hjá nokkrum stórum útgerðarfélögum, sem flytja til Reykjavíkur.

Hins vegar skiptir raunveruleikinn ekki máli, heldur það, sem fólk ímyndar sér eða fólki er talin trú um. Þannig skiptir máli, að þingmenn stjórnarflokkanna hafa komizt að raun um það heima í héraði, að þeir geta leyft sér að treysta og víkka sægreifakerfi fiskveiða.

Þetta endar með því, að Hæstiréttur getur ekki sótt hagsmuni þjóðar, sem vill ekki sækja þá. Ef fólkið í sjávarplássunum er svo fávíst, að það heldur sig geta haldið sægreifum hjá sér til eilífðarnóns, verður það bara að fá að reka sig á kaldan raunveruleikann.

Með sama áframhaldi mun ríkisstjórn og meirihluta Alþingis takast að snúa út úr kvótadómi Hæstaréttar og flytja okkur enn fjær þjóðareign á fiskimiðum.

Jónas Kristjánsson

DV