Soðnir en ekki étnir

Punktar

Í Guardian bendir George Monbiot á, að stjórnir Bandaríkjanna og Bretlands séu ekki mjög vandlátar í vali vina, þegar þau reyna að mynda bandalög gegn illa innrættum einræðisherrum á borð við Saddam Hussein. Einn vinanna er Islam Karimov, forseti Úsbekistan, sem er mjög hugmyndaríkur og setur meðal annars meinta óvini sína í potta og sýður þá lifandi, en étur þá svo ekki. Illmennasveitir Karimovs eru þjálfaðar af Bandaríkjaher. Monbiot telur, að Karimov haldi völdum í skjóli stuðnings Bandaríkjanna og Bretlands. Hann bendir líka á, að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands og mesti hræsnari nútímans, hafi hótað að reka Craig Murray, sendiherra sinn í Úsbekistan, og ofsótt hann á annan hátt fyrir að senda heim í ráðuneytið skýrslur um yfirgengilega illmennsku Karimovs.