Töluverð fortíð er í væntanlegri bók minni um “Þúsund og eina þjóðleið”. Einkum frá Sturlungaöld, er mikið var um ferðir milli héraða. Þar segir frá frægum fundarstöðum, svo sem Hallbjarnarvörðum á Bláskógaheiði, Ámótsvaði á Hvítá í Borgarfirði og Hvinverjadal á Kili, þar sem Gizur jarl og Kolbeinn ungi hittust oft. Þar segir líka frá frægum vöðum, til dæmis á Héraðsvötnum, andspænis Örlygsstöðum í Skagafirði. Þar sátu fegðarnir Sighvatur og Sturla lengi dags og horfðu stjarfir á 1.500 manna her Gizurar og Kolbeins þokast yfir vötnin. Feðgarnir gleymdu að taka skildi af klökkum og töpuðu stríðinu.