Sögumenn og ótíðindi

Greinar

Tölvupóstur var í fullum gangi og framleiddi kolrangar rokufréttir af yngsta manndrápsmáli ársins, þegar hlé varð í alvörufréttum fjölmiðla af málinu. Við slíkar aðstæður rifjast upp, hversu mikilvægt er, að fólk hafi aðgang að árvökulum og öruggum fjölmiðlum.

Á DV erum við stolt af algerri forustu í nýjum og réttum fréttum af málinu. Stoltið stafar ekki sízt af hinni miklu fyrirhöfn, sem fór í að afla tveggja eða fleiri óháðra heimilda að hverjum þætti málsins, svo sem lengi hefur verið regla fréttamiðla, sem taka sig alvarlega.

Áherzla DV á öruggar heimildir er jafngild áherzlu blaðsins á birtingu upplýsinga um allar hliðar umdeildra mála. Fréttastofa blaðsins reynir að forðast kranablaðamennsku, sem felst í, að skrúfað er frá einni heimild eða einum álitsgjafa, sem gefa ófullkomna mynd.

Einhliða kranablaðamennska hefur hins vegar magnazt í þjóðfélaginu, einkum við tilkomu sjónvarps og sjónvarpsviðtala. Hún hefur líka haft áhrif á prentaða fjölmiðla, til dæmis Morgunblaðið, sem hefur í seinni tíð í vaxandi mæli vikið frá hefðbundnum vinnureglum.

Það hlýtur til dæmis að hafa komið lesendum Morgunblaðsins á óvart, að skólastjóri Hestaskólans í Ölfusi hrökklaðist úr starfi og var vísað úr Félagi tamningamanna, eftir að blaðið hafði ítrekað birt algerlega einhliða fréttir af frábærri fyrirmyndar-skólastjórn hans.

Hér á DV höfum við óhjákvæmilega fundið fyrir mikilli áherzlu, sem Morgunblaðið leggur á að birta þráhyggju miðaldra poppara, sem hefur ekki enn jafnað sig eftir að hafa uppgötvað, að hann getur ekki ritstýrt DV. Aldrei hefur Morgunblaðið leitað sjónarmiða mótaðilans.

Með tilkomu Skjás eins og Striks hefur nýtt vandamál farið að ríða húsum. Tímafrek leit að upplýsingum víkur fyrir sveitum kjaftaska, sem hafa meikað það eða eru að meika það í samræmi við ákveðna tízku, sem felst í að verða fyrirhafnarlítið frægur eða ríkur.

Slíkir kjaftaskar stunda froðusnakk saman tveir eða fleiri í sjónvarpsþáttum og gefa yfirlýsingar um fjölmiðla, sem eru að vinna vinnuna sína. Meginþemað er, að þeir, sem grafast fyrir um heimildir og ónáða álitsgjafa út og suður, verði sjálfir óhreinir af greftrinum.

Þetta er eitt afbrigða gömlu reglunnar um, að sögumanni er kennt um ótíðindin. Hræsnarar sumra fjölmiðla sameinast sumum helgislepjumönnum úr klerkastétt og kvarta um, að vinnandi fjölmiðlar séu aðgangsharðir, tillitslausir, frekir, ósvífnir og jafnvel gulir.

Af ýmsu efni Morgunblaðsins má ráða, að blaðið líti fremur á sig sem opinbera stofnun en fjölmiðil. Af ýmsu efni sjónvarps og veraldarvefs, undir forustu Skjás eins og Striks, sem gefa tóninn, má ráða, að þáttastjórar líti fremur á sig sem kaffihúsakarla eða skemmtanastjóra.

Hver verður auðvitað að velja sér hlutskipti við hæfi. Um þessar mundir er greinilega vinsælt að velja leiðir í fjölmiðlun, sem víkja frá hefðbundnum svita við að afla fjölbreyttra heimilda og margs konar álits og hossa sér í staðinn á alls konar vaðli til að skemmta fólki.

Kjaftaskar, sem hvorki kunna að afla heimilda né mundu nenna því, ef þeir kynnu, sitja saman á skjánum og eru að meika það með því reyta af sér athugasemdir um þá fjölmiðla, sem forðast þessa tízku og eru enn að grafast fyrir um það, sem er að gerast í þjóðfélaginu.

DV hefur fyrir sitt leyti valið. Blaðið mun áfram verja ómældum tíma til að grafast fyrir um mál í samræmi við góðar verklagsreglur vestrænna alvörufjölmiðla.

Jónas Kristjánsson

DV