Sólbað við Svartahaf.

Greinar

Einkar óviðkunnanlegt er, að sjálfur forseti Alþýðusambands Íslands, Ásmundur Stefánsson, skuli vera í fimm vikna sólbaði á Krímskaga við Svartahaf í boði þess anga sovétstjórnarinnar, sem heitir Alþýðusamband Sovétríkjanna.

Hið nána samband ráðamanna Alþýðusambands Íslands við Sovétríkin hefur alltaf verið óviðkunnanlegt. Steininn tekur þó úr nú, þegar sovétstjórnin hefur í hótunum við Pólverja vegna stofnunar sjálfstæðra verkalýðsfélaga þar í landi.

Forsetinn var nýlega í boðsferð í Austur-Þýzkalandi, þar sem ráðamenn styðja mjög eindregið hótanirnar gegn pólsku verkalýðsfélögunum. Blaðafulltrúi alþýðusambandsins hefur og mjög verið á ferli hjá austrænum alþýðuóvinum.

Senn fer sérstök sendinefnd til Moskvu til að skála við fulltrúa þess anga sovétstjórnarinnar, sem heitir Alþýðusamband sovétríkjanna. Auk Ásmundar verða þar Guðríður Elíasdóttir og Karvel Pálmason alþingismaður!

För þingmannsins minnir á nýlega sneypuför þriggja þingmanna til Moskvu, þar sem þeir létu teyma sig milli veizluhalda og áróðursprédikana. Allar eru þessar austurgöngur einkar hvimleiðar eins og nú stendur á.

Auðvitað verður að reyna að hafa eitthvert samband við ráðamenn þar eystra, þótt ekki verði séð, að hinir íslenzku ferðalangar séu bógar til að sannfæra þá um nokkurn hlut. En undanfarna mánuði hafa aðstæður ekki verið venjulegar.

Nær væri, að hinir veizluglöðu alþýðusambandsmenn og þingmenn svöruðu gylliboðum frá Sovétríkjunum með því að segja, að engar verði austurferðir meðan sovézkur her sé í Afganistan og meðan sovétstjórnin ógni Pólverjum.

Stöðug vinalæti af hálfu Íslendinga um þessar mundir eru til þess eins fallin að sannfæra sovétstjórnina um, að allt sé eins og það eigi að vera, þrátt fyrir tilraunir til þjóðarmorðs í Afganistan og hótanir gagnvart Póllandi.

Auk þess hljóta að vera einhver siðferðileg takmörk fyrir því, hversu unaðslega menn geta velt sér upp úr gjöfum sovétstjórnarinnar eða þess anga hennar, sem heitir Alþýðusamband Sovétríkjanna. Þetta er eins og að taka við mútum.

… og í Frakklandi.

Annar sólbaðsmaður hefur vakið furðu upp á síðkastið. Það er Svavar Gestsson heilbrigðisráðherra, sem hélt sig í Frakklandi meðan hrundi heilbrigðisþjónusta íslenzkra sjúkrahúsa í hinni alræmdu fjárkúgun lækna.

Þótt sími sé til margra hluta nytsamlegur, kemur hann ekki í staðinn fyrir þrotlaust starf á staðnum, í sjálfri eldlínunni. Svavar brást, þegar hann flúði úr landi einmitt í fyrsta skipti, sem eitthvað átti að reyna á hann.

Vegna fjarvistar Svavars þurftu tveir aðrir ráðherrar að koma til skjalanna með öllum þeim töfum, sem fylgja, þegar nýir menn eru að setja sig inn í málin. Sólbað heilbrigðisráðherrans tafði fyrir lausn deilunnar.

Fjárkúgun læknanna var einhver alvarlegasta aðför að íslenzku þjóðskipulagi, sem gerð hefur verið um nokkurt árabil, og á því miður eftir að draga dilk á eftir sér. Á slíkri örlagastundu á ráðherrann að vera við.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið