Sólkolinn á Akureyri

Veitingar

Kom til Akureyrar. Leið strax eins og heima hjá mér. Fór beint í fiskbúðina á Garðarsbraut. Þar var tekið móti mér með sólkola, sjaldséðum hér á bæjum. Líka með steinbíti og hlýra og ekki sízt með ófrystri bláskel. Þetta er bara orðið eins og á höfuðborgarsvæðinu. Man þá tíð, þegar ekki var hægt að kaupa fisk á Akureyri. Og er þar mátti bara kaupa fisk í keðjuverzlunum, frosinn. Nú hafa kröfur manna aukizt. Fiskbúðin á Akureyri er vel spúluð og hrein, án fisklyktar. Það er atriði, sem sumir fisksalar flaska á. Fiskifýla fælir frá viðskiptavini og sezt í föt. Nútími matgæðinga er kominn til Akureyrar.