Sólkonungurinn kvartar

Greinar

Sólkonungurinn er ósáttur við Mannréttindadómstól Evrópu. Hann vill, að dómstóllinn láti af dómum gegn íslenzka ríkinu fyrir brot á mannréttindum einstaklinga. Hann flutti ræðu í Evrópuráðinu á þriðjudaginn, þar sem hann varaði við, að Mannréttindadómstóllinn verði áfrýjunardómstóll almennings.

Sólkonungurinn var búinn að koma bezta dálkahöfundi sínum í Hæstarétt. Þannig breyttist áhrifamikill dálkahöfundur í áhrifalítinn dómara, hvers úrskurðum er hnekkt í Strassborg. Sólkonungurinn er auðvitað ósáttur við, að menntað einveldi hans yfir Íslandi sé takmarkað að þessu eða öðru leyti.

Fyrst tapaði íslenzka ríkið árið 1989 úti í Strassborg í máli Jóns Kristinssonar á Akureyri. Síðan tapaði það árið 1992 í máli Þorgeirs Þorgeirssonar. Í þriðja skipti tapaði það árið 1995 í máli Sigurðar Sigurjónssonar. Og í fjórða skiptið tapaði ríkið árið 2001 í máli Péturs Sigurðssonar.

Ófarir íslenzka ríkisins hafa haldið áfram að hlaðast upp. Árið 2002 tapaði ríkið í máli Sigurþórs Arnarsonar. Og í fyrra tapaði ríkið tveimur málum, annars vegar í máli Hildar Hafsteinsdóttur og hins vegar Kjartans Ásmundssonar. Nokkrum öðrum málum hefur lokið með sátt og fjárútlátum ríkisins.

Á þessum fáu árum hafa Íslendingar áttað sig á, að þeir þurfa ekki að feta í fótspor kúgaðra forfeðra, sem sátu og stóðu eins og kerfiskarlar heimtuðu. Eins og fornmenn sóttu rétt sinn til erkibiskups í Niðarósi, sækja kappar íslenzks nútíma rétt sinn til óhlutdrægra dómara í Strassborg.

Sólkonungurinn grét yfir þessu í ræðu sinni í Evrópuráðinu, en fær ekki vilja sínum framgengt. Útlendingar brosa og segja honum huggunarorð. En sólkonungurinn er valdalaus í útlöndum, sem haga sér án tillits til hans. Ræðan hans í Varsjá bætist bara í safn gremjufullra yfirlýsinga.

Mannréttindi eru ekki hugtak í hugarheimi sólkonungsins og dálkahöfundar hans eða frændans í Hæstarétti. Þau hafa ekki heldur verið hugtak í heimi ríkisvaldsins á Íslandi, sem varð til á þann hátt, að íslenzkir embættismenn tóku við af dönskum, en alþýðan barðist ekki til valda eins og í Frans.

Úti í Strassborg er hins vegar dómstóll, sem fer ekki eftir geðþótta sólkonunga. Hann malar hægt en örugglega og truflar viðkvæmt geð íslenzka sólkonungsins í hvert einasta skipti.

DV