Sveitarfélög styðja íþróttafélög eftir mætti, greiða mikinn hluta kostnaðar við gerð íþróttamannvirkja og auðvelda störf þeirra á ýmsan annan hátt. Stuðningur sveitarfélaga við íþróttafélög er yfirleitt miklu meiri og jafnvel langtum meiri en við aðrar tegundir félaga.
Sumpart getur verið, að sveitarfélög líti á íþróttafélög sem aðferð til markaðssetningar sveitarfélaga á svipaðan hátt og fyrirtæki gera. Hins vegar er óljóst, hver væri tilgangur slíkrar markaðssetningar af hálfu stofnana, sem ekki eru að selja neitt sérstakt.
Höfuðástæðan fyrir stuðningi sveitarfélaga er fremur sú, að íþróttafélög eru talin aðferð til að halda börnum og unglingum frá sollinum. Talið er, að líkamlega holl keppni og leikur dragi úr líkum á, að börn og unglingar lendi af iðjuleysi í áfengi og öðrum vímuefnum.
Þetta er raunar stutt af rannsóknum, sem benda til, að iðkun íþrótta fari saman við góðan árangur í námi og farsæla siglingu barna og unglinga framhjá freistingum umhverfisins. Heilbrigð sál í hraustum líkama er gamalt orðtak, sem reynist byggjast á staðreyndum.
Íþróttasamband Íslands er byrjað að undirbúa efnivið í vottunarkerfi, svipað því sem þekkist á öðrum sviðum, þar sem fyrirtæki fá óháðar vottunarstofur til að staðfesta, að afurðir þeirra standist tiltekna skilmála. Íþróttafélög gætu þá aflað sér hliðstæðra stimpla.
Frá sjónarhóli sveitarfélaga væri æskilegt, að vottunarkerfi íþróttahreyfingarinar fæli í sér mat á, hvort félögin standi undir væntingum um þátttöku í að halda börnum og unglingum frá sollinum. Vottun um slíkt gæti verið forsenda fjárframlaga sveitarfélaga.
Í rauninni kemur stundum fyrir, að íþróttafélög eru sjálfur sollurinn. Margir unglingar hefja drykkju og reykingar í keppnisliðum. Sumir þjálfarar hafa verið afar slæmt fordæmi. Jafnvel er dæmi um, að félag hafi verið rekið heim af landsmóti ungmennafélaga.
Þótt þetta séu frekar undantekningar en regla, er mikilvægt, að þær verði ekki þolaðar. Vottun íþróttafélaga getur orðið gott tæki í baráttunni gegn iðjuleysi og neyzlu tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna. Því er ástæða til að fagna frumkvæði hreyfingarinnar.
Það var hins vegar köld gusa, sem samfélagið fékk frá ársþingi Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, þegar tveir áfengissalar stóðu fyrir því, að þingið felldi tillögu stjórnarinnar um áfengisneyzlu og áfengisauglýsingar. Það var hrikalegur álitshnekkir sambandsins.
Þingið felldi bann við áfengisneyzlu iðkenda, þjálfara og leiðtoga í keppnisferðum. Það felldi bann við neyzlu tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna á skemmtunum íþróttafélaga. Það felldi bann við auglýsingum á tóbaki og áfengi á íþróttamannvirkjum og búningum.
Þannig sendi ársþing Íþrótta- og ólympíusambands Íslands þau skýru skilaboð til sveitarfélaga, að íþróttafélög teldu ekki hlutverk sitt að taka þátt í baráttu samfélagsins gegn sollinum. Þetta var umdeilt á þinginu, en meirihlutinn samþykkti hina skelfilegu niðurstöðu.
Líkur benda til, að íþróttahreyfingin geti klórað sig út úr þeirri undarlegu stöðu að vera orðin að leppríki áfengissala og komist aftur í þá stöðu, að félögin geti farið að bera höfuðið hátt, þegar þau fara næst að reyna að kría peninga út úr sveitarfélögum landsins.
Það eru hins vegar hreinar línur, að félög, sem styðja afgreiðslu ársþings íþróttasambandsins á ofangreindum tillögum, eiga ekki skilinn stuðning sveitarfélaga.
Jónas Kristjánsson
DV