Sölumenn dauðans

Greinar

Sölumenn dauðans

George W. Bush Bandaríkjaforseti féll um helgina frá fyrri fullyrðingum um, að Saddam Hussein Íraksforseti hafi ráðið yfir gereyðingarvopnum við upphaf stríðsins gegn Írak og einnig verið viðriðinn árásina á World Trade Center 11. september 2001. Nú réttlætir Bush stríðið með því, að Hussein hafi verið brjálæðingur.

Þetta er léleg forsenda, því að mikið er af hættulegum brjálæðingum við stjórnvölinn í löndum þriðja heimsins og sumir þeirra beinlínis skjólstæðingar Bandaríkjanna. Umheimurinn mun aldrei fallast á, að ofstækisfull Bandaríkjastjórn ákveði einhliða, hvaða þjóðir verði frelsaðar undan oki meintra brjálæðinga og hvaða þjóðir ekki.

Þeir, sem gerzt þekkja, hafa allir tjáð sig síðustu daga. Hans Blix, yfirmaður vopnaleitar Sameinuðu þjóðanna, segir, að Bush og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafi ýkt hættuna af Hussein til að selja þjóðum sínum stríðið. Fyrirrennari hans, Bandaríkjamaðurinn Scott Ritter, segir, að enginn gereyðingarvopn hafi verið í Írak.

Þyngst vegur á metaskálunum, að David Kay, sem Bush sendi til Íraks með ótakmörkuð fjárráð, mannskap og tæki til að finna gereyðingarvopnin, hefur sagt starfi sínu lausu og segir engin gereyðingarvopn að finna í Írak og hafi engin verið. Kenningar um slík vopn hafi byggzt á röngum kenningum frá leyniþjónustum.

Einnig hefur verið hrakin kenning þeirra Bush og Blair um, að Saddam Hussein hafi verið viðriðinn hryðjuverkasamtökin Al Kaída og árásina 11. september. Skjöl hafa fundizt í Írak, sem sýna, að Saddam Hussein varaði sína menn beinlínis við samskiptum við Al Kaída, þar sem það væru hættuleg samtök trúarofstækismanna.

Af ýmsum ástæðum fóru Bandaríkin og Bretland á fölsuðum forsendum í stríð, sem kostaði um tíuþúsund borgara lífið. Þyngsta ástæðan er, að Bush og Blair vildu eindregið fá ástæðu til að fara í stríð og beittu leyniþjónustur miklum þrýstingi til að afhenda röksemdafærslur, sem styddu þegar tekna ákvörðun um stríð.

Leyniþjónusturnar voru milli steins og sleggju. Þær tóku trú á ýmsar lygar frá leyniþjónustu Ísraels og Ahmed Sjalabi, dæmdum fjárglæframanni, sem Bandaríkin gerðu að ráðgjafa sínum og ráðamanni í leppstjórn Íraks. Bæði Ísrael og Sjalabi höfðu beina hagsmuni af að falsa og skálda gögn um stöðu mála í Írak.

Niðurstaða sorgarleiksins er, að enginn trúir lengur neinu frá bandarísku og brezku leyniþjónustunum, ekki einu sinni hinni margtuggðu kenningu um, að gereyðingarvopn séu í Norður-Kóreu.

Þar á ofan óttast margir, að illa staddur Bush þurfi að ljúga nýju stríði upp á heiminn til að afla fylgis í forsetakosningunum í haust. Hann sagðist um helgina vera stríðsforseti.

Jónas Kristjánsson

DV