Sombrero

Veitingar

Sombrero mun vera það, sem við köllum stundum Mexikanahatt. Það er víðáttumikill hattur, sem varpar skugga á eigandann. Og satt er, að veitingahúsið Sombrero spannar vítt, frá Napólí til Houston. En flóknara er að svara, hvort það varpar skugga á eitthvað, til dæmis matarhefðir úti í heimi.

Þetta lítur út eins og veitingahús fyrir ferðamenn. Kraftaverk hefur nánast verið unnið á hartnær gluggalausum kjallara undir bakhúsi, sem aldrei var byggt. Innréttað hefur verið hvítt Miðjarðarhafs-veitingahús með bogahvelfingum, svo og bar og kamri, sem líta út eins og kofar á leiksviðsmynd af ströndinni.

Vinsælt er að sitja hér á einföldum stólum svörtum við rauðdúkað borð undir koparlitum vegglugtum. Á borðunum eru plattar úr fléttuðum viði, kerti og blóm, svo og hnífapör vafin í þunnar munnþurrkur úr pappír. Bezt verður stemmningin í fullu húsi við spánskt raul þægilegt með gítarundirleik.

Þjónusta er hjálpfús og vingjarnleg, en ekki beinlínis skólagengin. Hið eina óþægilega er stéttaskiptingin, þar sem annars vegar eru gestir og hins vegar maður, sem virðist vera eigandi eða forstjóri og einhverjir menn í kringum hann, sem sitja við sérstakt háborð og tala í síma. En þetta á ef til vill að veita einhvern Napólí- eða Palermó-stíl.

Veitingasalurinn myndar L um skenk og pizzueldhús. Þar má sjá lipran kokk búa til pizzur frá grunni. Pizzur staðarins eru að minnsta kosti jafngóðar og í Sælkeranum og eru hinar beztu hér á landi. Þær fást í 20 útgáfum og voru að miðjuverði á 315 krónur. Það eru langbeztu kaupin á staðnum. Með hálfri rauðvínsflösku og espresso ætti hún að kosta um 600 krónur á mann. Það verð og þau gæði eru nægt tilefni vinsælda þessa tæplega ársgamla staðar.

Chilli con carne kemur frá Texas

Deilt er um, hvaðan pizzur séu upprunnar. Sumir segja þær suðurítalskar, en aðrir bandarískar. Alténd eru þær ekki frá spánska menningarheiminum, sem nafnið Sombrero virðist þó fremur höfða til. Baccalá og pæla eru fulltrúar Spánar og empanadas fulltrúi Chile, Chilli con carne kemur frá Texas og lasagna frá Ítalíu. Þar með er mest af hinu þjóðlega upp talið.

Empanadas er chileanskur for- eða snarlréttur, maískaka fyllt hakki, lauk, eggjum, olífum og þurrkuðum ávöxtum, sem hér voru rúsínur. Fyllingin var matar- og bragðlítil, en kakan afar þykk, seig og vond. Ég hélt, að þetta væru mistök og prófaði nokkru síðar, en fékk nákvæmlega sömu útreið.

Chilli con carne er texanskur réttur, sem Mexikanar afneita með öllu. Það er hakk, rækilega kryddað chilli-pipar. Upprunalega var það án nýrnabauna, en nú eru þær yfirleitt hafðar með. Svo er hér. Hakkið var mun bragðdaufara en ég átti von á og ekki nógu merkilegt hakk fyrir 375 krónur.

Pæla kemur upprunalega frá Márum, sem kynntu Spánverjum hrísgrjón. Útgáfurnar eru óteljandi, allar fallegar, með mismunandi kjöti, skelfiski og grænmeti. Hrísgrjónin eiga að vera lítið soðin og blandan saffran-krydduð. Pælan í Sombrero fól í sér öðuskel, humar, úthafsrækju og kjúkling. Hún var falleg og æt, en engin himnaríkisfæða.

Saltfiskur að hætti Baska reyndist vera keimlíkur saltfiski að hætti Íslendinga. Fiskurinn sjálfur var góður, en hann var borinn fram með hveitisósu, frystum baunum og dósaspergli, sem ekki bættu fiskinn neitt, svo og ferskri steinselju og eggjum.

Flamenca-eggin voru góð. Þau voru tvö, listilega og léttilega spæld, með sneiddri pylsu ofeldaðri, strengbaunum og frystum baunum, borin fram á pönnu. Rétturinn var ekki þakinn rauðum pipar, svo sem vera ber, heldur tómatþykkni.

Virðast kunna ítölskuna bezt

Bezti þjóðarhefðarétturinn var hin ítalska lasagna. Það eru plötur úr eggjapasta, bakaðar í lögum með fyllingu á milli. Hér voru þetta þunnar og góðar plötur með hæfilega miklu kjöthakki milli laga og osthjúp ofan á. Kannski kunna menn bezt að elda upp á ítölsku í eldhúsi Sombrero.

Með öllum þessum og öðrum aðalréttum var borið fram ágætis hrásalat og brauð. Í salatinu voru jafnan olífur. Brauðið var oftast gróft hollustubrauð, borið fram með smjöri án álpappírs.

Súpur reyndust góðar. Bragðsterk grænmetissúpa tær fól í sér grænar baunir, seljustöngulbita og strimla af rófum og gulrótum. Skelfisksúpa með humri, skötusel, dósakræklingi, rækju og tvenns konar papriku var enn betri. Báðar voru bornar fram með grófu brauði og smjöri.

Djúpsteiktur smokkfiskur var sem betur fer laus við fitubragðið úr pottinum, en hafði því miður lítið eigið bragð. Mun betri reyndist smokkfiskur a la planche. Hann var meyr, bragðgóður og bragðréttur, borinn fram með kryddhrísgrjónum. Þetta var bezti maturinn, sem prófaður var.

Sjö hvítvínssoðnar öðuskeljar voru góðar, bornar fram með sósu í skeljum og hrísgrjónabeði. Brauð fylgdi, en ekki salat.

Ofnsteiktur kjúklingur var dökkur, matarmikill, afar meyr, hæfilega kryddaður og góður. Skorpan var mjúk og örlítið sætsúr. Með fylgdu ofsoðnar og linar strengbaunir og linar, vondar franskar kartöflur, svo og dökk olífusósa.

Lamb á teini var mun lakara. Það var þrælsteikt, ofsalega kryddað og sérstaklega þó saltað, borið fram á haug af ýmsu gumsi, svo sem kryddhrísgrjónum, gúrku, tómati, papriku og lauk.

Ísar tveir, sem prófaðir voru, reyndust vera góðir, myntuísinn frekar góður og líkjörsísinn mjög góður. Kaffið úr ítölsku kaffivélinni var hið ljúfasta, fáanlegt í ýmsum útgáfum. Vínlistinn er heldur betri en gengur og gerist hér á landi.

Sombrero býður hlaðborð í hádeginu. Þar var heit súpa, tveir heitir kjötréttir og tveir heitir fiskréttir, fjórar tegundir síldar, tvenns konar hrásalat, eggjakaka, sneiðar af ýmsu kjöti og pylsum, harðsoðin egg, spánskt salat og margt fleira. Þetta var selt eftir vigt, 100 grömmin á 80 krónur. Úrvalið er töluvert, en heiti maturinn hættir að vera lystugur, þegar fyrsti hálftíminn er liðinn. Þetta er þó hagkvæmt og nothæft þeim, sem koma klukkan tólf, þegar maturinn er nýframborinn.

Að pizzum og hádegistilboði frátöldu er miðjuverð þriggja rétta málsverðar með kaffi og hálfri vínflösku um 1070 krónur á mann. Sombrero er því í svokölluðum miðjuflokki verðlags íslenzkra veitingahúsa. Miklu meira vit er í 600 króna pizzuveizlunni, sem ofar er getið.

Í Sombrero fæst ekki gaspacho de zaruela frá Spáni, ceviche eða tortillas frá Mexikó, parillada eða sopapillas frá Chile. Staðurinn er léleg kynning á matreiðslu spánska menningarheimsins, svo sem hvar annars staðar á ferðamannaströnd. Sérstaðan er bara sú, að hér eru fölir gestir norður við Dumbshaf að rifja upp síðustu Spánarferð og spá í þá næstu.

Jónas Kristjánsson

Dagsseðill:
120 Skelfisksúpa
360 Pönnusteiktur silungur með kryddjurtafyllingu
375 Hvítvínssoðinn skötuselur
590 Aligrísasteik með rauðvínsósu og bakaðri kartöflu
140 Mintuís með súkkulaðisósu

Fastaseðillinn:
145 Kjúklingasúpa
145 Gratineruð lauksúpa
155 Rjómalegin spergilsúpa
240 Rækjukokkteill
225 Salat El Sombrero, grænmeti, olífur, skinka, túnfiskur
210 Huevos Flamenca, ofnbökuð egg með skinku og grænmeti
335 Smokkfiskur a la planche með hrísgrjónum og salati
350 Pönnusteikt smálúða meuniere með rækjum og sveppum
335 Djúpsteiktur smokkfiskur a la espanda
340 Baccalo a la vasca
790 Grillsteiktur humar með steinseljubrauði og salati
380 Grilluð lúða með ofnbökuðum kartöflum, salati og salsa aioli
560 Pæla a la valenciana, kjúklingur, skelfiskur og hrísgrjón
375 Chilli con carne
375 Lasagna
560 Grísakótilettur pitsaiola með tómatmauki og grænmeti
680 Nautapiparsteik með bakaðri kartöflu og sveppum
570 Lambahryggsneið með bakaðri kartöflu og grillsósu
545 Kryddlegið nautakjöt á teini með hrísgrjónum og salati
615 Grísalundir með rauðvínssósu og bakaðri kartöflu
145 Bláberjaís með rjómatoppi
155 Súkkulaði-mousse valenciana
160 Púrtvínslegnar melónusneiðar með vanillukremi
145 Mokkaís með rjóma og ristuðum hnetum

DV