Frá Grenjum á Mýrum til Hörðubóls í Hörðudal.
Jeppaslóðin flýtir fyrir ferð hestamanna, en dregur um leið úr fortíðartilfinningu svæðisins.
Til skamms tíma ráku Borghreppingar fé sitt þessa leið heim úr Seljalandsrétt í Hörðudal. Af Langavatnsmúla er afar víðsýnt og leiðin sunnan hans er um gróið hraunaland og melhæðir. Öll þessi leið er fær jeppum. Áður fyrr var Langidalur og Sópandaskarð fjölfarin leið milli byggða. Hennar er getið í Laxdælu og Sturlungu. Hér riðu Þorgils Hölluson, Bolli og Þorleikur Bollasynir í aðför að Helga Harðbeinssyni að Vatnshorni í Skorradal. Á Sturlungaöld bjó Lauga-Snorri Þórðarson í Laugardal og var hann hliðhollur Sturlungum. Lauga-Snorri féll í Örlygsstaðabardaga 1238 þegar hann reyndi að verja Sturlu Sighvatsson.
Förum frá eyðibýlinu Grenjum norður slóð um Grenjadal meðfram Langá, undir Grenjamúla. Síðan til vesturs að Rauðukúlu og norðvestur að Lambafelli og með austurhlið þess norður að Fjallakofanum við Sandvatn. Síðan áfram norðvestur með fjöllunum, yfir Kvígindisdal og upp Langavatnsmúla vestan Langavatns. Niður af fjallinu austanverðu innan við Langadal og áfram norður Langavatnsdal um Rauðhól. Áður en við komum inn í Víðidal beygjum við til norðvesturs fyrir Fossamúla. Síðan milli Víðimúla að austan og Þrúðufells að vestan upp í Sópandaskarð í 380 metra hæð. Næst förum við brekkurnar úr skarðinu norður í Þrúðudal, undir Hálfdánarmúla austanverðum og síðan undir Þrúðufelli. Þar heitir dalurinn Laugardalur. Þegar við komum að Tungu og Seljadal förum við austur yfir dalinn að Hlíð og síðan áfram norðvestur dalinn austan við Hörðudalsá. Við Hörðuból komum við niður á þjóðveg 54 um Skógarströnd.
42,8 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir
Skálar:
Fjallakofinn: N64 45.463 W21 51.351.
Jeppafært
Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Jafnaskarð, Svínbjúgur, Rauðamelsheiði, Skógarströnd, Lækjarskógarfjörur, Sanddalur, Miðdalir, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Gufá, Hrosshyrna, Skarðheiðarvegur, Klif, Lambahnúkar, Eyðisdalur, Hallaragata, Miðá, Prestagötur.
Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Útivistarkort