Sörli týnist ekki

Greinar

Að venju munu tíu til tólf þúsund manns heimsækja landsmót hesta og hestamanna, sem að þessu sinni er haldið á Hellu á Rangárvöllum. Þar af verða um þrjú þúsund útlendingar, sem hafa tekið þvílíku ástfóstri við íslenzka hestinn, að þeir koma langan veg hingað á landsmót á tveggja ára fresti.

Erfitt er að finna dæmi um annan eins mannfagnað á landinu, allra sízt á tveggja ára fresti. Mikilvægustu boltaleikir draga ekki að sér annan eins fjölda og enn síður annan eins fjölda erlendra manna, þótt landsleikir séu. Hesturinn einn getur reglubundið kallað saman þennan mikla fjölda fólks.

Íslenzki hesturinn er sérstakur. Hann er lítill og loðinn miðaldahestur, skapgóður sjarmör og þægilegur í samanburði við önnur hestakyn, fæst í fleiri litbrigðum en önnur kyn og hann hefur fimm gangtegundir, meðan önnur hestakyn hafa þrjár og fáein hafa fjórar. Hann töltir bæði og skeiðar.

Af öllu æðinu umhverfis íslenzka hestinn hér heima og erlendis hefur risið grein af landbúnaði, sem stendur undir sér án hinna miklu afskipta ríkisvaldsins, sem einkenna hefðbundnar greinar, nautgripi, sauðfé og jafnvel garðyrkju. Íslenzki hesturinn er hluti markaðshagkerfis nútímans.

Á Hellu eru mörg hundruð keppnishesta. Sumir koma úr vögnum, sem eru hesthús að stærð. Umhverfis suma hestana er hópur aðstoðarfólks, sem stuðlar að gengi hestsins um ýmsa forkeppni, sem nær hámarki á landsmóti. Ef allur tími væri talinn, kostar þetta mörg hundruð þúsund krónur á hest.

Til mikils er líka að vinna, ef vel gengur. Margir gera það gott í hestamennsku, þótt aðrir lepji dauðann úr skel. Helzt er það ræktunin, sem er fjárhagslega erfið, enda getur vel ættað folald undan vinsælum stóðhesti og dýrkeyptri hryssu kostað nokkur hundruð þúsund krónur, þegar það fæðist.

Nánast hvern föstudag má sjá íslenzka reiðkennara í Leifsstöð á leið í kennslu út í heim. Þetta er sérstæður angi af þotuliðinu, sem fer vikulega milli landa í brýnum erindagerðum. Tekjurnar af íslenzka hestinum koma vel fram í tamningum, sölu og kennslu og margvíslegri þjónustu.

Meira en helmingur íslenzka hestakynsins er núna erlendis. Áhugamenn um hestinn eru miklu fleiri í útlöndum en hér á landi. Tímarit um íslenzka hestinn eru gefin út hér á landi á ensku og þýzku. Auk þess eru til 10-15 sérhæfð tímarit í helztu markaðslöndunum, sum hver í nokkur þúsund eintökum.

Alþjóðasamband íslenzka hestsins ákvað fyrir löngu, að allir þessir hestar skuli heita íslenzkum nöfnum. Löngu eftir að Jónar og Pálar verða týndir verða því til Sörlar og Blesur.

Jónas Kristjánsson

DV