Sovét-Reykjavík

Greinar

Goðsögnin er hrunin um góða stjórn Reykjavíkurborgar og traust kerfi embættismanna hennar. Byggingarsaga Perlunnar á Öskjuhlíð og ráðhússins í Tjörninni sýnir lélega stjórn borgarinnar og ótraust kerfi embættismanna, reykvískum borgurum til mikils peningatjóns.

Raunar minnir Reykjavík mjög á kerfi, sem verið er að reyna að leggja niður í Rússlandi. Það er eins flokks kerfi með náinni sambúð embættismanna og Flokksins, sem leiðir til allsherjar ábyrgðarleysis og gífurlegrar sóunar á meðferð útsvars- og hitaveitupeninga.

Að mati þessa samtvinnaða kerfis Flokksins og framkvæmdavalds Reykjavíkur er enginn ábyrgur fyrir óhæfilega dýrri byggingarsögu þessara tveggja húsa. Fyrrverandi borgarstjóri er ekki ábyrgur og ekki heldur hinn litlausi borgarstjórnarmeirihluti hans.

Að mati þessa samtvinnaða kerfis er borgarverkfræðingur og hitaveitustjóri ekki heldur ábyrgir, ekki heldur verkefnisstjórar og hönnunarstjórar húsanna tveggja. Allt þetta kerfi verður látið standa óbreytt eins og ekkert hafi í skorizt, enda er ástandið næsta sovézkt.

Athyglisvert er, að kjarni varnarinnar fyrir óráðsíu stjórnmála- og embættismannanna, sem ráða fyrir Reykjavík, felst í, að gagnrýnendur séu andvígir mannvirkjum af þessu tagi yfirleitt og að fátt muni gleðja augað, ef músarholusjónarmið þeirra mundu ráða.

Að vísu eru sumir gagnrýnendur andvígir því, sem þeir kalla monthús. En aðrir eru einfaldlega andvígir vinnubrögðum, sem fela í sér, að kostnaðaráætlanir upp á hálfan þriðja milljarð hækka í tæpa fimm milljarða á skömmum tíma, þegar raunveruleikinn síast í ljós.

Svo virðist sem þessi tvö hús hafi meira eða minna verið hönnuð út í loftið og síðan notuð á byggingarstigi sem tilraunadýr fyrir æfingar hönnuða, í stað þess að hanna húsin fyrst og byggja þau svo. En þá hefði ekki verið hægt að reisa þau fyrir síðustu kosningar.

Meðan þessi teiknivinna með loftpressum stóð í blóma, gættu embættis- og stjórnmálamenn borgarinnar þess að veita varfærnar upplýsingar um fram kominn og áætlaðan kostnað. Þess vegna hefur hvert reiðarslagið komið í kjölfar annars á byggingartímanum.

Með vandaðri undirbúningi í samræmi við alþjóðlega staðla hefði mátt reisa húsin fyrir lægri upphæð, líklega fyrir um það bil hálfum milljarði minna af peningum útsvarsgreiðenda og hitaveitugreiðenda. Þannig hefði mátt hindra, að sukkið bættist ofan á montið.

Merkilegast í þessu öllu saman er, að greiðendur útsvars og hitaveitu í Reykjavík, þegnar Bubba kóngs, láta sér fátt um finnast. Þeir flykkjast í Perluna, dásama höfðingsskapinn að baki henni og hneykslast á, að menn séu að fárast um, þótt dýrðin “kosti eitthvað”.

Munurinn á Reykvíkingum og Rússum felst í, að hinir síðarnefndu hamast við að reyna að höggva sundur samtvinnað kerfi eins flokks og embættismanna, en hinir fyrrnefndu eru sáttir við að láta misþyrma sér í fjármálum. Þannig er Sovét-Reykjavík enn í blóma.

Þótt hinn nýi borgarstjóri hafi látið stöðva að sinni framkvæmdir við Perluna, bendir ekkert til, að hann hyggist breyta hinu sovézka ástandi. Hann hefur sérstaklega tekið fram, að verðlauna eigi framkvæmdastjórn hússins með því að leyfa henni að starfa áfram.

Montið og sukkið hefur þó haft það gott í för með sér, að horfin er goðsögnin um góða stjórn Reykjavíkur og kemur ekki aftur fyrr en sovézka kerfið leggst niður.

Jónas Kristjánsson

DV