Sovét-svartnættið.

Greinar

Svartnættið færist ört yfir Sovétríkin. Þar eru harðlínumenn og nýstalínistar smám saman að taka völdin. Knésetning Afganistans og frysting Sakharofs eru dæmi um magnaðri heimsvaldastefnu og harðstjórn.

Sovétstjórnin tekur ekki hið minnsta mark á samningi austurs og vesturs, sem kenndur er við Helsinki. Þriðjungur þess samnings fjallaði um mannréttindi, skoðanafrelsi og upplýsingafrelsi. Og allt er þetta fótum troðið.

Ofsóknirnar gegn Sakharof eru ekkert einangrað dæmi. Á síðasta ári lét ógnarstjórnin fangelsa meira en hundrað andófsmenn. Hún vinnur ötullega að því að kaffæra mannréttindahreyfinguna í svartnætti Sovétríkjanna.

Aðgerðirnar gegn Sakharof vekja meiri athygli en aðrar, af því að hann er einn stórmenna nútímans. Hann er einn þekktasti kjarnorkuvísindamaður heims og friðarverðlaunamaður Nóbels fyrir störf að mannréttindum.

Íslendingum er vel kunnugt um annað dæmi um glæpi harðstjórnarinnar gegn manréttindum. Það eru ofsóknirnar gegn skákmeistaranum Kortsjnoj og fjölskyldu hans í Sovétríkjunum. Þar hefur villimennskan komið vel í ljós.

Ef sonur Kortsjnojs færi í herinn, mundi honum vera meinuð brottför vestur fyrir járntjald á þeim forsendum, að hann vissi um hernaðarleyndarmál. Þess vegna vill hann ekki fara í herinn og fær dóm fyrir liðhlaup.

Þetta minnir á hina alkunnu aðferð, þegar ógnarstjórnin rekur andófsmenn úr vinnu og dæmir þá síðan fyrir að vera sníkjudýr. Hún rekur þá úr húsnæði og dæmir þá síðan fyrir flæking. Hún er gersamlega siðlaus.

Víðar er glæpalýður við völd en í Sovétríkjunum. En heimsins voldugustu glæpamenn eru þó Brezhnev og Andropov og flokksfélagar þeirra. Ráðamenn Sovétríkjanna einir eru verulega hættulegir heimsfriðnum.

Öll samningsgerð þeirra við Vesturlönd er markleysa ein, hvort sem hún fjallar um hermál, mannréttindi eða önnur mál. Undirskriftir harðstjóranna í Moskvu eru nákvæmlega einskis virði, bæði fyrr og nú.

Brezhnev skrifar undir Helsinki-sáttmála, ef hann telur það geta svæft Vesturlönd. Hann skrifar undir sovézka stjórnarskrá til að flagga framan í útlendinga, en tekur ekki mark á einu orði í henni.

Vesturlönd geta ekki keypt andófsmönnum og gyðingum frelsi með viðskiptum og tækniaðstoð. Þau geta ekki keypt sér svefnfrið með samningum um gagnkvæman samdrátt herafla. Harðstjórarnir hlæja að eigin undirskriftum.

Þeir treysta sér meira að segja til að halda ólympíuleika í fangelsi sínu. Þeir eru að flytja úr Moskvu hverja einustu sál með sjálfstæða hugsun. Eftir sitja þeir einir, sem hafa ekki hugmynd um frelsisbaráttu mannsandans.

Hér vestra vísum við til Voltaires og segjumst fyrirlíta skoðanir hver annars, en vera reiðubúnir að deyja fyrir rétt hver annars til að hafa þessar skoðanir. Eystra láta ráðamenn sér nægja að fyrirlíta skoðanir.

Milli hugsjóna austurs og vesturs er gjá, sem seint verður brúuð. Og hún verður ekki brúuð af íþróttamönnum. Enda munum við horfa í undrun á þá íþróttamenn, sem fara til Moskvu til að gefa villimönnum blóm í hnappagatið.

Við skulum aldrei víkja frá því, að allir menn hafi rétt til að fá og flytja upplýsingar og skoðanir og vera öðruvísi en aðrir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið