Sovétríkin eru dauð

Greinar

Winston Churchill sagðist ekki hafa tekið að sér að vera forsætisráðherra til að sjá um afnám brezka heimsveldisins. Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. Á fáum árum var brezki fáninn dreginn niður í ríkjunum, sem skipuðu brezka heimsveldið.

Nú segist Mikhail Gorbatsjov ekki hafa tekið að sér að vera forseti til að sjá um afnám sovézka ríkjasambandsins. Gorbatsjov er enginn Churchill endurborinn, en þótt svo væri, mundi honum reynast erfitt að hamla gegn því, sem virðist sagnfræðilega óhjákvæmilegt.

Sovétríkin eru síðasta heimsveldi mannkynssögunnar. Síðan heimsveldi Frakka og Breta hrundu, eftir sigur þeirra í síðari heimsstyrjöldinni, eru Sovétríkin síðasta dæmið um, að unnt sé að halda mörgum, ólíkum þjóðum innan eins og sama ríkis, gegn vilja þjóðanna.

Áður hrundu austurríska heimsveldið og tyrkneska heimsveldið. Þar áður hrundu spánska heimsveldið og portúgalska heimsveldið. Enn fyrr hrundu rómverska heimsveldið og persneska heimsveldið. Sovétríkin eru bara síðasta eintak löngu útdauðs ríkjaskipulags.

Þegar þjóðir ákveða að sætta sig ekki við að vera undir stjórn manna, sem tala framandi tungu í fjarlægri borg, hvort sem hún er Moskva eða Róm, London eða París, Madrid eða Lissabon, er bara tímaspursmál, hvenær þær losna undan forsjá heimsveldisins.

Þegar þjóðir ókyrrast, verður smám saman of dýrt fyrir heimsveldið að halda lífi. Það kostar mikið að beita hörku með her og lögreglu. Það kostar líka mikið að beita linku með fyrirgreiðslu og mútum. Kostnaðurinn við heimsveldið verður brátt meiri en tekjurnar.

Sovétríkin eru efnahagslega og fjárhagslega aðframkomin. Þau geta ekki lengur haldið uppi kostnaði við leppstjórnir í ríkjum Austur-Evrópu. Þau þurftu að halda þar úti dýru hernámsliði og ennþá dýrari mútum, gjafverði á olíu og öðrum sovézkum hráefnum.

Gorbatsjov sá, að hernám Austur-Evrópu sogaði máttinn úr heimsveldinu. Þess vegna leyfði hann Austur-Evrópu að sigla vestur fyrir járntjald. Hann hugsaði eins og rómverskir keisarar, sem ákváðu, að ekki svaraði kostnaði að halda Svartaskógi eða Rúmeníu.

Gorbatsjov telur hins vegar núna, að Sovétríkin hafi efni á að þráast gegn, að þjóðirnar við Eystrasalt fái frelsi. Það er misskilningur. Efnahagur Sovétríkjanna hefur haldið áfram að versna á þessu ári. Hið sagnfræðilega lögmál uppdráttarsýkinnar er óstöðvandi.

Gorbatsjov hefur eytt fimm árum í misheppnaðar tilraunir til að fá vit í gamla hagkerfið í Sovétríkjunum. Sérfræðingar hans segja honum, að Sovétríkin geti ekki stokkið á kaf í vestrænt markaðshagkerfi eins og Pólverjar hafa gert og aðrir í Austur-Evrópu eru að gera.

Áfram verður reynt að finna hina ímynduðu millileið í hagstjórn og það mun ekki takast. Upplausnin á eftir að aukast, bæði í Rússlandi og í hernumdu löndunum innan Sovétríkjanna. Kákasusþjóðir, Íslamsþjóðir og Úkraínumenn munu feta á eftir Eystrasaltsþjóðum.

Erfiðir tímar eru í vændum í Sovétríkjunum. Gorbatsjov kann að falla af stalli, þótt hann hafi rakað að sér völdum í nýfengnu embætti forseta. Eftirmenn hans, harðir eða linir, munu lenda í sömu vandræðum. Sovézka heimsveldinu verður ekki bjargað. Það er búið.

Það verður ekki fyrr en Sovétríkin hafa rofnað niður í þjóðlönd, að lífskjör og efnahagur fara aftur að batna í Rússlandi og í öðrum löndum innan sovézka veldisins.

Jónas Kristjánsson

DV