Spakmæli Kolkrabbans

Greinar

Ekki er nóg að eiga Ræsi, Nóa-Síríus, 20% í Mogganum, þjónustufólk í Ríkissjónvarpinu og nokkuð af reiðufé. Slíkt stendur ekki lengur undir nafnbótinni Kolkrabbinn. Ekki eru þar sjáanlegir þvílíkir viðskiptajöfrar, að þeir geti snúið við nánast lóðréttri leið fyrrverandi hornsteins hagkerfis okkar niður á botn í hafi gleymskunnar.

Fyrir fáum árum hefði enginn trúað spádómum um, að Kolkrabbinn væri á leiðarenda sem valdamiðstöð þjóðfélagsins. Nokkrar ættir áttu þjóðfélagið og notuðu Sjálfstæðisflokkinn og Morgunblaðið til að gæta hagsmuna sinna. Nafn fyrirbærisins eitt og sér segir mikla sögu um ofurefli þess í þjóðfélaginu.

Kolkrabbinn stjórnaði til skamms tíma fáokunarfyrirtækjum í nokkrum mikilvægustu greinum efnahagslífsins. Hann átti tryggingarnar, benzínið, fragtskipin, farþegaflugið og margvíslegt fleira, sat í stjórnum fjármálastofnana. Nú er hann skyndilega hvarvetna á útleið og þarf að leita skjóls hjá nýjum valdhöfum í viðskiptalífinu.

Þetta minnir á örlög Sambandsins. Það hrundi á skömmum tíma sem valdamiðstöð. Leifar þess lifa þó sómasamlegu lífi í svokölluðum Smokkfiski undir handarjaðri Kolkrabbans, rétt eins og Kolkrabbinn mun lifa enn um sinn undir handarjaðri nýs máttarvalds, sem heitir Samson, en kalla mætti Styrjuna, af því að vald þess fæddist í Austurvegi.

Sambandið hrundi, af því að það var gróðurhúsajurt, sem þreifst aðeins í skjóli hins pólitíska valds Framsóknarflokksins, sem gaf því rekstrarfé í formi neikvæðra vaxa. Þegar raunvextir komu til skjalanna, hrundi Sambandið, af því að það var gæludýr, sem gat ekki lagað sig að nýjum tíma og nýjum leikreglum, sem kölluðu á framtak.

Ráðgert var, að Kolkrabbinn gæti setið einn að beztu bitum einkavæðingarinnar. Svo virtist í fyrstu, þegar ríkið sá til dæmis til þess, að hann fengi síldar- og fiskimjölsverksmiðjurnar. En síðan voru leikreglur færðar í óhlutdrægara horf og þá reyndust utangarðsmenn klárari í sviptingunum en makráðir laukar Kolkrabbans.

Eins og Sambandið var hann í náðinni í stjórnmálunum, hafði vanið sig á hlýjuna og gat ekki lifað úti í kuldanum. Þegar kallað var á flóknari snilligáfu í fjármálavafstri en Kolkrabbinn hafði fram að færa, beið hann lægri hlut fyrir nýjum valdamiðstöðvum, sem höfðu risið með ógnarhraða í einkavæðingu heima og heiman.

Allt er þetta í samræmi við Íslandssöguna. Hin miklu efnahagsveldi fyrri alda, svo sem Skarðverjar, áttu hlutfallslega miklu meira af þjóðarauðnum en þau efnahagsveldi, sem hér hafa verið rædd. Samt hvarf ofurauður þeirra á örfáum kynslóðum og svo mun einnig verða um veldin, sem taka við af Kolkrabba og Smokkfiski.

Tvö spakmæli segja alla söguna. Annað er, að á misjöfnu þrífast börnin bezt. Hitt er, að allt er í heiminum hverfult.

Jónas Kristjánsson

DV