Spámenn og spekingar.

Greinar

Einn spámanna félagsspekinnar nýtur í kennsluskrá Háskóla Íslands virðingar umfram aðra slíka. Allir hinir verða að sæta hengingu á tvær fyrirlestrakippur, meðan þessi hefur heila kippu út af fyrir sig. Það er Karl Marx.

Maður þessi var þýzkur sérvitringur, sem var uppi á fyrri hluta síðustu aldar. Hann var sérhæfður í að misþyrma þýzkri tungu í þykkum bindum, sem enginn skildi eða hefur skilið og allra sízt Karl Marx sjálfur.

Slíkir spámenn eru til á mörgum tungumálum. En bezt tekst þeim uppi í rugli á þýzkri tungu. Má þar nefna Friðrikana Hegel og Nietzsche, sem eru nokkurn veginn eins torskildir og hinn umræddi ástmögur Háskóla Íslands.

Höfuðverkur Karl Marx, “Das Kapital’,’ er yfirleitt gefinn út á rúmlega eitt þúsund síðum. Ekki er vitað til, að nokkur Íslendingur hafi komizt gegnum allt það rugl, nema Kristmann Guðmundsson, að vísu að eigin sögn.

Við slíkar aðstæður myndast oft fjölmenn hjörð túlkenda, sem gjarna raða sér í öndverðar fylkingar, líkt og skólaspekingar miðalda, er deildu um, hvort dúfurnar í biblíunni hefðu flogið steiktar eða í öðru ástandi.

“Vísindi” Marxtúlkenda minna á skólaspekina. Þau felast í deilum um útleggingu textans, til dæmis hvort hinn yngri eða hinn eldri Marx hafi verið réttari. Enda ekki unnt að búast við samræmi í þúsund síðna rugli.

Virða má Marx lélega sagnfræði til vorkunnar. Fyrir sex aldarfjórðungum var fornleifafræði tæpast til og sagnfræði var á lágu stigi, meðal annars vegna þess að þá gátu menn ekki lesið sumar tungur fornþjóðanna.

Einnig má virða Marx lélega hagfræði til vorkunnar. Fyrir sex aldarfjórðungum var iðnbyltingin ný af nálinni í Þýzkalandi og stefna félagslegra trygginga í burðarliðnum. Þá var útilokað að sjá fyrir framhaldið.

Erfiðara er að fyrirgefa, hvað Marx er leiðinlegur. Hann er eins og fótgönguliðsmaður í samanburði við ýmsa riddara félagsspekinnar, sem hafa þeytzt um á snarpri hugsun og skýru máli, jafnvel gamansömu.

Af hverju ekki alveg eins láta Þjóðverjann Max Weber fá fyrirlestrakippu út af fyrir sig? Hann var alténd gamansamur, enda var höfuðkenning hans sú, að græðgi kapítalismans stafaði af Kalvínstrú Hollendinga, Svisslendinga og Skota.

Merkilegast er, að ekki hefur enn tekizt að hrekja gamansemi Webers, þótt mikið hafi verið reynt. Hann var líka uppi á þessari öld, svo hann hafði meiri þekkingarforða að byggja á en félagsspekingar liðinna alda.

Og af hverju ekki veita Bretanum Arnold Toynbee sömu virðingu? Hann geystist þó með neistaflugi hugans fram og aftur um veraldarsöguna. Margar spár hans munu ekki standast tímans tönn, en þær eru þó ekki þoka, ekki rugl frá grunni.

En sagan líður hægt í Háskóla Íslands. Þar eru í kennsluskrá nefndar stríðsárarannsóknir Frankfúrtaranna Horkheimers og Adornos sem nútímakenningar. Og þar er líka getið hins bandaríska heimsmeistara í þokugerð, Talcott Parsons.

Sá ruglukollur afrekaði mörg þykk bindi um nánast alls ekki neitt. Samanlagt innihald hefur aðeins reynzt vera ein setning, sem á mæltu máli hljóðar svo: “Samfélag byggist á samkomulagi”. Auðsjáanlega tilvalinn félagi Marx í Háskóla Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV