Sparnaður á silfurfati

Greinar

Hagfræðistofnun Háskólans hefur reiknað, að sparnaður þjóðarinnar vegna lækkunar iðgjalda í bílatryggingum nemi 2,3 milljörðum króna á þessu ári. Þar af er 1,1 milljarður beinn sparnaður bíleigenda og 1,2 milljarðar sparnaður þjóðarinnar af 0,4% lækkun vaxtastigs.

Minni útgjöld heimilanna af bílatryggingum lækka vísitölu neyzluverðs. Stór hluti skulda heimilanna er verðtryggður með tengingu við vísitölur. Þar af leiðandi verða vextir lægri en ella hefði orðið. Þess vegna leggst 1,2 milljarðs sparnaður ofan á 1,1 milljarðs sparnað.

Þetta er árangurinn af framtaki nokkurra manna í Félagi íslenzkra bifreiðaeigenda. Þeir neituðu að trúa fullyrðingum íslenzkra tryggingafélaga um, að tap væri á bílatryggingum hér á landi. Þeir bentu á, að bílatryggingar væru mun ódýrari í nágrannalöndunum.

Niðurstaðan af athugunum leiddi til samnings við erlent tryggingafélag um að koma inn á íslenzka markaðinn með lægri tryggingar en áður höfðu þekkzt hér á landi. Gömlu fáokunarfélögin neyddust til að lækka sínar tryggingar og þjóðin öll naut framtaks fárra.

Auðvelt verður fyrir þjóðina að tapa aftur þessum 2,3 milljörðum á ári. Það gerir hún með því að halda tryggð við fáokunarfyrirtækin, svo að nýja tryggingafélagið festist ekki í sessi og verði á endanum keypt af fáokunarfyrirtækjunum eins og fyrra Skania-dæmið sýndi.

Stór hluti þjóðarinnar heldur enn tryggð við einokunarflugfélagið, sem sagði, að tap væri á rekstri innanlandsflugs, áður en það lækkaði verð til að mæta nýrri samkeppni. Þar sem of fáir fluttu sig milli félaga, munu innlend flugfargjöld hækka að nýju á næsta ári.

Meðan samkeppnin stendur í innanlandsflugi spara landsmenn ógrynni fjár í flugfargjöldum og annað eins í minni verðbólgu á samkeppnistímanum. Þegar samkeppnin dofnar aftur, missir fólk sparnaðinn til baka, bæði fargjaldasparnaðinn og verðbólgusparnaðinn.

Tímabundinn sparnaður þjóðarinnar í innanlandsflugi og vonandi varanlegur sparnaður hennar í bílatryggingum eru hrein skiptimynt í samanburði við sparnaðinn, sem hlytist af samkeppni banka. Okkur vantar sárlega útlendan banka hingað til lands.

Reiknað hefur verið, að íslenzkir bankar taka tvöfalt meira af veltunni í rekstrarkostnað en útlendir bankar. Þetta stafar af gífurlegum afskriftum vegna tapaðra útlána. Vaxtamunur inn- og útlána er tvöfalt hærri en hann væri við eðlilegan rekstur bankanna.

Af samanlögðum slíkum ástæðum telja stjórnvöld víða á Vesturlöndum hagkvæmt að auka viðskiptafrelsi erlendra aðila og stækka þannig markaðinn, svo að samkeppni aukist og fólk spari peninga. Þetta dregur úr verðbólgu og léttir stjórnvöldum vinnu sína.

Hér á landi eru stjórnvöld hins vegar lítt gefin fyrir samkeppni. Þau knúðu fram sameiningu flugfélaga og eru að reyna að sameina banka. Öll slík sameining dregur úr samkeppni og hækkar kostnað fólks. Hún hækkar vísitölur, sem stjórnvöld reyna að halda niðri.

Dýrasta fáokunarhneigð stjórnvalda felst í kvótakerfum landbúnaðar og sjávarútvegs. Þessi opinberu skömmtunarkerfi draga úr samkeppni í atvinnulífinu, sem sést bezt af snöggum flutningi auðs í fáar hendur. Uppboð veiðileyfa mundu færa þjóðinni hagnaðinn.

Þjóðin verður sjálf að hafa þrek til að gæta hagsmuna sinna. Hún getur ekki treyst, að alltaf séu einhverjir úti í bæ, sem færi henni vinning á silfurfati.

Jónas Kristjánsson

DV