Spennandi atburðir

Hestar

Spennandi atburðir eru að gerast í alþjóðaheimi íslenzka hestsins. Gæðingakeppnin, sem var séríslenzkt fyrirbæri, er komin í ferðalag út í heim. Og skipuleggjendur næstu vetrarólympíuleika eru farnir að velta fyrir sýningu íslenzkra hesta á ís við setningu leikanna eða annað hátíðlegt tækifæri.

Björn Ólafsson, sem skipuleggur reiðsýningar í skautahöllum í Bandaríkjunum, hafði milligöngu um komu tveggja framkvæmdastjóra frá vetrarólympíuleikunum á Ítalíu. Þeir fylgdust með ístöltinu í skautahöllinni í Reykjavík og fengu að sjá sérstaka hópsýningu, sem sett var saman til að sýna, hversu öruggur og agaður íslenzki hesturinn er í mynzturreið á ís, með tilheyrandi fánum, stjörnuljósum og eldglæringum.

Skipuleggjendur ólympíuleikanna láta vel af því, sem þeir sáu, og eru að velta fyrir sér, hvort hópreið íslenzkra hesta sé kjörið atriði fyrir sjónvarp og áhorfendur. Ekki kemur í ljós fyrr en í sumar eða haust, hvort sú verður niðurstaðan. En þegar er ljóst, að hróður og frægð íslenzka hestsins fer ört vaxandi um þessar mundir.

Gaman er líka að vakningu í útlöndum fyrir gæðingakeppni, sem víða þykir nýstárlegt fyrirbæri. Á blaðsíðum yy-xx í Eiðfaxa er viðtal við Sigurbjörn Bárðarson um námskeið og próf, sem haldið var í lok marz í Reykjavík fyrir erlenda gæðingadómara. Í kjölfarið munu sumir þessara nýju dómara, ásamt íslenzkum starfsbræðrum, dæma í gæðingakeppni, sem verður á nokkrum stöðum í Evrópu í sumar.

Erlendis hafa menn hingað til nærri eingöngu lagt áherzlu á íþróttakeppni, eins og við þekkjum hana á heimsleikum og Íslandsmeistaramótum, en lítið vitað um gæðingakeppni, sem einkennir íslenzku landsmótin. Nú eru menn erlendis að átta sig á, að gæðingakeppni er hin hefðbundna og gamalgróna hestakeppni á Íslandi og sú keppni, sem einna helzt aðgreinir íslenzka hestinn frá öðrum hestakynjum.

Þessi viðtöl um vetrarólympíuleikana og landvinninga gæðingakeppninnar eru skýr dæmi um, að íslenzki hesturinn sækir fram á ýmsum sviðum um þessar mundir. Ef árangur næst á þessum sviðum og að veruleika verður framtíðarsýnin, sem sagt er frá í hinni greininni á þessari síðu, er vissulega bjart framundan í heimi íslenzka hestsins.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 4.tbl. 2004.