Spennandi verkefni

Greinar

Erfitt en óhjákvæmilegt verður fyrir Íslendinga að taka þátt í niðurstöðu Kyoto-fundarins um takmörkun á losun efna, sem valda loftslagsbreytingum. Ef samkomulag verður, má búast við, að þjóðir mikilla utanríkisviðskipta eigi erfitt með að neita að taka þátt.

Loftslagsfræðingar deila minna en áður um áhrif efnalosunar á loftslagið. Hinir bjartsýnu í hópi þeirra telja, að hitinn muni hækka um tvö stig á næstu áratugum. Það dugar til að bræða ísþekjur, breyta hafstraumum og hækka yfirborð sjávar. Því þarf að grípa í taumana.

Gagnaðgerðir eru sérstaklega mikilvægar fyrir fiskveiðiþjóð í strandríki. Fiskigöngur tengjast mótum kaldra og heitra hafstrauma. Ef þeir færast til, getur ördeyða orðið á fengsælum fiskimiðum. Ennfremur spillast hafnir og mannvirki, ef sjór gengur á land.

Verkefni okkar á Kyoto-fundinum getur því ekki falizt í að fara undan í flæmingi með því að styðja metnaðarlítil markmið, frestanir og undanþágur. Við eigum hagsmuna okkar vegna að vera í hópi þeirra þjóða, sem lengst vilja ganga til að sporna gegn loftmengun.

Hingað til hafa aðgerðir okkar á þessum sviðum verið fremur ódýrar. Við höfum að mestu flutt notkun okkar á rafmagni, ljósum og hita yfir í tiltölulega vistvæna orkugjafa. Við eigum hins vegar eftir að fást við mengandi útblástur bíla, skipa og stóriðjuvera.

Áþreifanlegasta vandamálið er, að fyrirhuguð stóriðja á Íslandi mun auka loftmengun á Íslandi á sama tíma og við skuldbindum okkur til að minnka hana. Flestir eru sammála um, að ekki sé ástæða til að ætla, að Kyoto-fundurinn gefi okkur svigrúm til undanbragða.

Stóriðjusinnar verða annað hvort að leggja drauma sína að meira eða minna leyti til hliðar eða útvega stóriðju, sem ekki mengar. Ekki er nóg að semja reglur um mengunarvarnir, heldur sjá um að þær séu ekki þverbrotnar eins og í sóðaverinu á Grundartanga.

Önnur leið til að koma orku landsins í verð er að leiða hana í rafmagnskapli á hafsbotni til Evrópuríkja, sem tækju þá á sig stóriðjuvandræðin og kostnaðinn við þau. Þessi leið hefur lengi verið til umræðu og verður raunar álitlegri með hverju árinu, sem líður.

Á Kyoto-fundinum verður ekki stefnt að óbreyttum útblæstri mengandi lofttegunda, heldur beinlínis að minnkun. Evrópusambandið vill til dæmis minnka mengunina um 15% árin 1990­2010. Til þess að ná slíku marki, þurfum við að taka á fleiru en stóriðjunni.

Við komumst ekki hjá að gera dýrar ráðstafanir til að minnka mengun af völdum véla í bílum og skipum. Stjórnvöld verða að taka forustu á því sviði. Sennilega verður að taka upp koltvísýringsskatt, er renni til þeirra aðila, sem koma sínum málum á hreint.

Notkun vetnis sem eldsneytis í vélum skipa og bíla getur gerbreytt erfiðri stöðu Íslands. Tilraunir og rannsóknir á því sviði hafa gengið svo vel, að full ástæða er til að ætla, að vetni fari senn að verða hagkvæmur orkugjafi. Þar þurfum við að verða í fararbroddi.

Að svo miklu leyti sem vandkvæði verða á notkun vetnis í samgöngum á landi, þeim mun meiri ástæða er til að beina sjónum okkar að rafmagnsbílum og rafmagnssporbrautum. Fyrsta skrefið er að gefa slíkum tækjum afslátt af núgildandi innflutningsgjöldum.

Þetta eru ekki vandamál, heldur spennandi verkefni. Ef við viljum, getum við náð Kyoto-markmiðunum, hver sem þau verða. Og það er í okkar eigin þágu.

Jónas Kristjánsson

DV